„Maður dílar við hræðsluna seinna“

Óskar segir úkraínska hermenn hafa meiri reynslu en þeir rússnesku.
Óskar segir úkraínska hermenn hafa meiri reynslu en þeir rússnesku. AFP

„Gærkvöldið var frekar öflugt. Það voru harðir bardagar á götunni, svo um miðnætti fóru sírenurnar í gang og það birtist á símanum hjá konunni minni að allir ættu að koma sér niður í sprengjuskýlið af því að það var á leiðinni þvílík stórskotahríð hérna yfir borgina.“

Þetta segir Óskar Hall­gríms­son, ljós­mynd­ar­i og mynd­list­armaður, sem bú­sett­ur er í Kænug­arði, höfuðborg Úkraínu, ásamt eiginkonu sinni.

Óskar segir að þetta hafa verið fyrstu stóru aðvörunina frá Úkraínu.

Bjuggu um sig á salerni

Eftir um hálftíma neðanjarðar færðu Óskar og eiginkona hans sig upp á jarðhæðina í húsinu þeirra. 

„Eftir um hálftíma í sprengjuskýlinu þá færðum við okkur upp á jarðhæðina. Það eru pípur og læti þarna niðri þannig að maður heyrir ekki alveg hvað er að gerast. Þegar við vorum komin upp á jarðhæðina þá heyrðum við í byssuskotum í fjarlægð, en það voru engar sprengingar.

Við bjuggum um okkur inn á salerninu og lágum þar í klukkutíma. Síðan ákváðum við að fara aftur í íbúðina okkar og fórum að sofa þar sem við heyrðum það voru engin læti í kringum okkur.“

Pútin hafi vanmetið stöðuna

Hann segir að síðan þau hjónin vöknuðu í dag hafi þau heyrt í stöku sprengingu. Óskar hefur mikla trú á úkraínska hernum og telur Pútín hafa vanmetið hann.

„Af þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá hinum og þessum blaðamönnum þá er stjórnarherinn víst á öllum stöðum að halda Rússum gjörsamlega við efnið og bara að brjóta þá á bak aftur ef eitthvað er. Þá sérstaklega hér í Kiev. Pútín hefur greinilega vanmetið þessi vopn sem þeir voru að fá.“

Óskar Hallgrímsson er búsettur í Úkraínu.
Óskar Hallgrímsson er búsettur í Úkraínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eins og mbl.is greindi frá í gær þá hafa Úkraínumenn fengið vopn frá Bandaríkjunum og Þýskalandi.

„Annars vegar ertu með stóran her sem er með átta ára bardagareynslu. Langflestir af þessu rússnesku hermönnum eru í mesta lagi með baradagareynslu úr Sýrlandi, annars er þetta að stærstum hluta óreyndur her. Hann er auðvitað þjálfaður og þeir eru með stór og flott tæki, en varðandi landhernað þá virðast þeir ekki vera að ná almennilegum tökum á því.“

Ofbeldi gegn almennum borgurum aukist

Óskar segir Rússa farna að beita almenna borgara meira ofbeldi. Í gær greindi mbl.is frá því að meðal annars hefði verið skotið á sjúkrahús fyrir krabbameinssjúka í Kænugarði.

„Þeir eru farnir að beita meira ofbeldi þegar kemur að almennum borgurum og þessum innviðum sem eru hér í kring. Hann skaut flugskeyti beint inn í leikskóla og drap nokkur börn í gær. Þeir skjóta á alla bíla með almennum borgurum í og meira að segja keyra yfir þá. Það er einnig ótti að hann fari að beita þessum hitaþrýstingsvopnum, sem eru bara eins og litlar kjarnorkusprengjur.“

Pekka Haavisto, ut­an­rík­is­ráðherra Finn­lands, hefur sagt að hann telji að Rúss­ar geti verið til­bún­ir til að nota kjarn­orku­vopn í inn­rás sinni í Úkraínu.

Óttast er að Rússar fari að beita kjarnorkuvopnum.
Óttast er að Rússar fari að beita kjarnorkuvopnum. AFP

Skotinn á færi eða handtekinn

Útgöngubann er nú í gildi í Kænugarði, en það tók gildi klukkan fimm í gær og gildir til klukkan átta að morgni mánudags.

„Þetta er gert þar sem Rússar eru með skemmdarverkamenn sem líta út eins og almennir borgarar. Þeir eru að merkja hina og þessa staði sem skotmörk fyrir dróna til að senda flugskeyti og annað. Þetta er því gert til að hreinsa þá burt úr borginni. Lögreglan og herinn eru að ganga um alla borgina. Ef þú ert gangandi um og klæddur í venjuleg föt þá ertu bara álitinn vera Rússi og þá ertu annað hvort skotinn á færi eða handtekinn.“

Væri erfitt að missa rafmagnið

Óskar og eiginkona hans fóru í matvörubúð í gær þar sem þau birgðu sig upp af nauðsynjavörum. Þau búa sig undir lengra útgöngubann.

„Við fórum og keyptum mat í gær og getum ábyggilega verið inni í viku, jafnvel lengur. Það verður erfitt ef hann nær að skjóta á einhverja orkustöð þannig að við missum rafmagn eða þannig að það nái að hafa áhrif á fjarskipti.“

Hann segir að eins og er skipti ekki miklu máli hvort útgöngubann sé í gildi eða ekki þar sem það er ekki mikið tilefni til að fara út. Öruggast er að vera heima við.

„Hvort það væri útgöngubann eða annað þá er öruggasti staðurinn til að vera er inni hjá þér. Eina sem ég hef farið var í gær þegar ég fór að taka myndir í neðanjarðarlestarstöðinni þegar fólk var að flýja þangað. Annars höfum við bara verið heima að horfa á Netflix. Við erum að vísu búin að vera heilan dag að klára einn þátt þar sem við erum alltaf í símanum eða fylgjast með fréttum.“

Ýta hræðslunni til hliðar

Óskar og eiginkona hans ætla eins og staðan er núna að vera um kyrrt í borginni þar sem þau telja sig nokkuð örugg. 

„Ég er þannig staðsettur í borginni að ég er á frekar öruggum stað. Bæði er ég ekki í sjónlínu við neitt sem gæti verið target og í miðjunni á þessari byggð sem ég bý í, það eru háar byggingar í kring þannig að það er margt annað sem að verndar okkur, en auðvitað er maður hræddur. Maður reynir að ýta því til hliðar, núna er tíminn til að díla við aðstæður, maður dílar við hræðsluna seinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka