Ríki Evrópusambandsins munu senda orrustuþotur til Úkraínu, að beiðni stjórnvalda í Kænugarði, til að hrinda á bak aftur innrás rússneska hersins bæði í lofti og á láði.
Frá þessu greindi utanríkismálastjóri sambandsins, Josep Borrell, rétt í þessu.
„Við ætlum jafnvel að veita orrustuþotur. Við erum ekki bara að tala um skotfæri. Við erum að veita mikilvægari vopn til að fara í stríð,“ tjáði hann blaðamönnum á fundi.
Tók hann fram að Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, hefði sagt sambandinu að herinn þyrfti eins orrustuþotur og hann er þegar vanur að halda úti.
„Sum aðildarríki eiga slíkar flugvélar,“ sagði Borrell.
Svo virðist sem um sé að ræða vélar sem framleiddar voru í Rússlandi og að þær muni koma frá Búlgaríu, Slóvakíu og Póllandi, að því er blaðamaður Washington Post hefur eftir evrópskum stjórnarerindreka.
European Union to supply fighter jets to Ukraine: Russian-made ones, from Bulgaria, Slovakia and Poland, a European diplomat tells me
— Michael Birnbaum (@michaelbirnbaum) February 27, 2022