Þýskaland mun verja 100 milljörðum evra í herbúnað á þessu ári. Landið mun því verja yfir tvö prósent af efnahagsframleiðslu sinni til varnarmála á þessu ári.
Þetta sagði Olaf Scholz kanslari Þýskalands í dag.
Þannig hefur innrás Rússa í Úkraínu fengið stærsta hagkerfi Evrópu til breyta stefnu sinni í varnamálum.
Líkt og mbl.is greindi frá í gær þá hafa þýsk stjórnvöld ákveðið að senda Úkraínumönnum vopn af eigin vopnabirgðum til að aðstoða þá við að verjast árásum rússneska hersins.
„Við munum stofna sérstakan „Bundeswehr' sjóð,“ sagði Scholz og bætti við að fjármagnið yrði notað til fjárfestinga og í vopnaþróun.
„Héðan í frá munum við árlega fjárfesta yfir tveimur prósentum af landsframleiðslu í varnarmál okkar,“ sagði hann og kallaði eftir því að sérstakur varnarmálasjóður yrði skráður inn í stjórnarskrána.