Átta látið lífið í Ástralíu vegna flóða

Vatnshæðin gæti náð allt að 14 metrum á einhverjum svæðum.
Vatnshæðin gæti náð allt að 14 metrum á einhverjum svæðum. AFP

Átta hafa látið lífið í úrhellisrigningunni í Ástralíu sem hefur valdið gríðarmiklum flóðum. Íbúar hafa margir þurft að flýja upp á húsþök sín vegna vatnsflæmis og hefur tugþúsundum verið gert að yfirgefa heimili sín vegna þeirra.

Veðurstofan í Ástralíu hefur varað við því að hætta sé á lífshættulegum skyndiflóðum við Kyrrahafs-strandlengjuna.

Þá hafa milljónir Ástrala í Queensland fengið þau tilmæli að halda sig heima og tæplega þúsund skólum hefur verið lokað tímabundið vegna flóðanna.

Tugþúsundum hefur verið skipað að flýja heimili sín.
Tugþúsundum hefur verið skipað að flýja heimili sín. AFP

Klifraði upp á þak til að fá hjálp

Í bænum Lismore vaknaði Danika Hardiman, einn íbúanna, við að moldarbrúnt vatn hafði náð alla leið upp að svölum íbúðar hennar sem var á annarri hæð. Hún ásamt maka hennar brugðu á það ráð að klifra upp á þak hússins þar sem björgunarmenn á kajak urðu varir við þau og gátu sent eftir hjálp.

„Ímyndaðu þér, þú ert á bát að sigla framhjá þökum fólks,“ sagði Hardiman í samtali við blaðamenn. „Það hræðilega er að þetta er bara byrjunin, það er mun meiri rigning í vændum,“ bætti hún við.

43 þúsund íbúum bæjarins var gert að yfirgefa heimili sín í morgun en talið er að vatnshæðin hafi ekki enn náð hámarki, sem þeir telja að verði 14 metrar. Þetta eru verstu flóð sem íbúar bæjarins hafa upplifað.

Borgin Maryborough í Queensland.
Borgin Maryborough í Queensland. AFP

Óska eftir aðstoð á samfélagsmiðlum

Neyðarþjónustur voru undir miklu álagi vegna símhringinga og hafa því einhverjir íbúar reynt að óska eftir aðstoð á samfélagsmiðlum, m.a. bæjarstjórinn Steve Krieg.

„Ef einhver er með bát og getur farið á Engine Street, þá er þunguð kona þar sem situr á þakinu sínu. HJÁLP,“ sagði hann í færslu á Facebook í morgun.

Þá hafa björgunarmenn farið með þyrlu um svæðið í von um að ná þeim íbúum sem eru strandaðir á húsþökum.

Björgunarmenn með bát.
Björgunarmenn með bát. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert