Banvæn kastspjót Úkraínumanna

Eistneskir hermenn með Javelin á æfingu fyrr í mánuðinum.
Eistneskir hermenn með Javelin á æfingu fyrr í mánuðinum. AFP

Kastspjót Úkraínumanna eru það vopn sem ef til vill hefur helst hægt á innrás Rússa í landið. Vopnið, sem á ensku nefnist Javelin, er hannað til að sprengja í sundur skriðdreka og gerir það býsna vel.

Með þessu vopni grönduðu úkraínskir hermenn í Sumí-héraði til að mynda 15 rússneskum T-72-skriðdrekum á einu bretti.

Spjótið er afar einfalt í notkun, krefst engrar sérþjálfunar og er nær óstöðvandi eftir að hleypt er af. Var það fyrst tekið í notkun af Bandaríkjaher árið 1996 og fengu brynsveitir Saddams Hússein að kynnast því af biturri reynslu.

Vopnið virkar þannig að eldflaug er skotið frá skothólki, oftast úr axlarhæð, og stöðvast flaugin nánast í loftinu áður en eldflaugamótor tekur við.

Úkraínskir hermenn taka upp sendingu Javelin-vopna frá Bandaríkjunum skömmu áður …
Úkraínskir hermenn taka upp sendingu Javelin-vopna frá Bandaríkjunum skömmu áður en innrásin var gerð. AFP

Steypir sér niður á skotmarkið

Tilgangur þessa biðtíma er að draga úr því höggi sem hermenn verða fyrir þegar hleypt er af. Inni í eldflauginni er heili sem notast við innrautt ljós til að þekkja og elta skotmark sitt, en á leið sinni þangað nær eldflaugin um 150 metra hæð áður en hún loks steypir sér niður á skotmarkið, rétt eins og kastspjót.

Þegar þangað er komið taka við tvær sprengihleðslur.

Sú fyrri étur sig, eða öllu heldur bræðir sig, í gegnum brynvörn skriðdrekans og sú seinni sprengir hann upp innan frá. Þessi sérstaki eiginleiki Javelin að ráðast gegn skotmarki sínu úr hæð er mikilvægur því brynvörn skriðdreka er jú minnst að ofanverðu.

Mikil drægni

Drægni flaugarinnar er ekki síður mikilvæg því kastspjótið getur grandað bryndrekum úr nærri 5.000 metra fjarlægð.

Á sama tíma og Javelin og önnur sambærileg vopn reynast Úkraínumönnum mikilvæg er það ekki eitt og sér nóg til að tryggja sigur.

Þó þykir ljóst að Rússar hafa lent í miklum vandræðum með birgðaflutninga í sókn sinni, bryndrekar og bílar hafa orðið olíulausir og miklar tafir orðið á framrás landhersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert