Fleiri en 400 launmorðingjar á eftir forsetanum

Úkraínskir hermenn á Maidan-torginu í miðborg Kænugarðs í gær.
Úkraínskir hermenn á Maidan-torginu í miðborg Kænugarðs í gær. AFP

Fleiri en fjögur hundruð rússneskir málaliðar eru að störfum í Kænugarði samkvæmt skipun frá Kreml um að ráða forsetann Volodimír Zelenskí af dögum.

Hefur þeim einnig verið skipað fyrir um að myrða þá sem skipa ríkisstjórn forsetans og leggja um leið grundvöll fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að taka völdin í landinu.

Þetta herma heimildir breska dagblaðsins Times.

Wagner-hópurinn, sem er hópur málaliða á vegum eins af nánustu bandamönnum Pútíns, sendi fjölda liðsmanna sinna frá Afríku fyrir um fimm vikum, til að koma ríkisstjórninni frá völdum gegn ríkulegri umbun.

Leita átti að flugumönnum

Upplýsingar um þetta munu hafa borist ríkisstjórninni til eyrna að morgni laugardags. Klukkustundum síðar var 36 klukkustunda útgöngubann kynnt til sögunnar, þar sem leita átti að flugumönnum Rússa.

Voru borgarar varaðir við því að litið væri á þá sem útsendara Kremlar og að þeir gætu átt hættu á að vera drepnir, sæjust þeir á götum úti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert