Geta nú geymt kjarnavopn í Hvíta-Rússlandi

Rússland hefur verið helsti bandamaður Hvíta-Rússlands.
Rússland hefur verið helsti bandamaður Hvíta-Rússlands. AFP

Hvíta-Rússland mun nú geta hýst kjarnavopn og rússneskt herlið til frambúðar, eftir breytingar á stjórnarskrá landsins.

Þetta sýna niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingarnar sem haldin var í landinu í gær, sunnudag. Í þeim fólst einnig framlenging á mögulegri setu leiðtogans Alexanders Lúkasjenkó í valdastól.

Atkvæðagreiðslan fór fram á sama tíma og nágrannaríkið í suðri er undir hörðum árásum rússneska hersins eftir að hann réðst þangað inn aðfaranótt fimmtudags.

Alexander Lúkasjenkó stillti sér upp á kjörstað í gær.
Alexander Lúkasjenkó stillti sér upp á kjörstað í gær. AFP

Lofaði atkvæðagreiðslunni eftir mótmælin

Stefnt er að því að friðarviðræður verði haldnar á landamærum Úkraínu og Hvíta-Rússlands í dag, mánudag.

Ígor Karpenkó, formaður landskjörstjórnar, sagði 65,16 prósent atkvæða hafa fallið með breytingunum og 10,07 prósent á móti, að því er rússneskir ríkismiðlar herma.

Að hans sögn var kjörsókn 78,63%.

Lúkasjenkó, sem hefur verið við völd frá árinu 1994, lofaði atkvæðagreiðslunni eftir söguleg mótmæli við umdeildu endurkjöri hans árið 2020.

Tvö ár eru frá því breytingar á rússnesku stjórnarskránni gengu í gegn, sem leyft hafa forsetanum Vladimír Pútín að sitja að völdum fram til ársins 2036.

Fékk kjarnaodda í arf frá Sovétríkjunum

Rússland er lykilbandamaður Hvíta-Rússlands og hefur Lúkasjenkó leyft rússnesku herliði að nota land sitt til að ráðast inn í Úkraínu frá norðri.

Hvíta-Rússland erfði fjölda kjarnaodda Sovétríkjanna eftir hrun þeirra árið 1991, en þeir voru síðar færðir í hendur stjórnvalda í Moskvu.

Stjórnarandstæðingurinn Svetlana Tsikanovskaja, sem bauð sig fram gegn Lúkasjenkó árið 2020, hefur gagnrýnt atkvæðagreiðsluna og bent á að harðar aðgerðir stjórnvalda gegn hvers konar gagnrýnisröddum geri út um það að hægt sé að ræða niðurstöður hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert