Margir supu hveljur í gær þegar Vladimir Pútín Rússlandsforseti greindi frá því að kjarnavopnasveitir landsins væru komnar í viðbragðsstöðu.
Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði meðal annars að ef Rússar ákveði að beita kjarnorkuvopnum gegn Úkraínu fæli það í sér hamfarir fyrir heiminn.
Pútín talaði um „fælingarvopn“ en sérfræðingar hafa talað um að máttur þeirra felist helst í því orði; þau valdi skelfingu og sé ætlað að hindra stríð en ekki valda því.
Undir fælingarvopn flokkast ýmsar tegundir af eldflaugum og sprengjum, þar á meðal kjarnavopn.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum, eða því sem talið er vitað um kjarnavopn Rússa, eru þeir með um 1.500 kjarnaodda tilbúna og 3.000 til viðbótar í geymslu.
Þrjár leiðir eru til að beita kjarnavopnum og hægt að tala um „kjarnorkuþríhyrninginn“ í því samhengi.
Hann felur í sér eldflaugakerfi á landi, annað hvort í sílóum eða á færanlegum eldflaugapöllum; kjarnorkuflotann, sem samanstendur af kafbátum sem geta skotið eldflaugum, og svo langdrægum sprengjuþotum.
Áætlað er að Rússar séu nú með um 320 eldflaugakerfi á landi, sem geti borið allt að 1181 kjarnaodd. Þá eru þeir með tíu kjarnorkuknúna kafbáta, og er áætlað að þeir geti borið 144 eldflaugar með allt að 656 kjarnaoddum.
Í norðurflota Rússa eru nú sex slíkir kafbátar, og eru fimm þeirra af gerðinni Delta samkvæmt merkingum Atlantshafsbandalagsins, en sá sjötti er af Borei-gerð, sem NATO kallar Dolgorúkí.
Í Kyrrahafsflota Rússa eru svo þrír kafbátar, einn af Delta-gerð og tveir Dolgorúki-bátar, sem bera samtals 48 eldflaugar.
Ellefti kafbáturinn er af Typhoon-gerð, en þess má geta að það er sama gerð og kafbáturinn Rauði október átti að vera af, í kvikmyndinni vinsælu Leitin að Rauða október.
Sá kafbátur er aftur á móti ekki í notkun sem stendur, þar sem verið er að uppfæra eldflaugakerfi hans.
Rússar ráða yfir 66 langdrægum sprengjuþotum, sem geta borið um 200 stýriflaugar og sprengjur. Þar af eru 11 þotur af gerðinni Tu-160, sem NATO kallar Blackjack, og 55 þotur af gerðinni Tu95MS, sem NATO kallar Bear eða Birni.
Birnirnir eru Íslendingum ekki með öllu ókunnir þar sem þeir hafa stundum flogið nærri lofthelgi Íslands.
Rússneski blaðamaðurinn og friðarverðlaunahafinn Dimitrí Múratov segir að í orðum Pútíns felist hótun um kjarnorkustríð. Hann efast um að rússneskir ráðamenn reyni að stöðva Pútín hyggist hann beita slíkum vopnum.
„Ætli einhver að eyða Rússlandi ber mér að bregðast við. Já, það verður hörmuleg ógæfa fyrir mannkynið. En hvers vegna þörfnumst við veraldar án Rússlands?“ sagði Pútín í heimildarmynd fyrir fjórum árum síðan.