Stjórnvöld Kanada hafa tilkynnt að þau muni senda varnarbúnað á borð við hjálma til að hjálpa úkraínska hernum að verjast innrás Rússa.
Úkraínskir hermenn þurfa skotheld vesti, hjálma, gasgrímur og nætursjónauka, sagði kanadíski utanríkisráðherrann Melanie Joly á blaðamannafundi í kvöld.
Aðstoðin er metin á 25 milljónir kanadadollara eða tæplega 2,5 milljarða íslenskra króna.
Joly tók sérstaklega fram að hún hefði fengið persónulega aðstoðarbeiðni frá varaforsætisráðherra Úkraínu, Olhu Stefanishynu.
Varnarmálaráðherrann Anita Anand ítrekaði á sama fundi að aðstoð í formi hernaðaraðgerða væri ekki á dagskrá.