Kanna leiðir til að halda geimstöðinni án Rússa

Alþjóðlega geimstöðin, ISS.
Alþjóðlega geimstöðin, ISS. AFP

NASA er að kanna leiðir til að halda Alþjóðlegu geimstöðinni (ISS) á sporbraut án Rússa.

Háttsettur embættismaður hjá NASA segir þó engin merki sjást um að Rússland muni segja sig úr samstarfinu í kjölfar innrásar í Úkraínu.

Bandaríkin sjá geimstöðinni fyrir orku og súrefnisbúnaði en það er á ábyrgð Rússa að knýja stöðina áfram og halda henni á sporbraut.

Mögulegt að hætta samstarfinu

Dmitrí Rogosín, sem fer fyrir geimferðastofnun Rússlands, greindi í síðustu viku frá þeim möguleika Rússa að segja sig úr samstarfinu til að bregðast við refsiaðgerðum Bandaríkjanna með þeim afleiðingum að geimstöðin, sem vegur 400 tonn, félli niður til jarðar.

Kathy Lueders, sem stýrir geimferðaáætlun NASA, segir ekkert raunverulega gefa það til kynna að Rússar séu ekki skuldbundnir verkefninu og aðeins sé verið að skoða hvernig fáist meiri sveigjanleiki í rekstri.

Hún bætir við að það væri aftur á móti erfitt að geta ekki haldið áfram að starfa á friðsamlegan hátt í geimnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert