Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, hefur með staðfestu og baráttuanda sínum sigrað hjörtu úkraínsku þjóðarinnar og vakið samhug bróðurparts heimsbyggðarinnar síðastliðna viku eftir að Rússland réðst inn í Úkraínu.
Pólitískur ferill Zelenskís spannar aðeins þann tíma sem hann hefur setið í embætti. Hann var kjörinn forseti í apríl árið 2019 með 73 prósent atkvæða þrátt fyrir að margir teldu framboð hans vera gjörning. Zelenskí hafði áður gert garðinn frægan sem leikari og uppistandari. Um tíma var ýjað að því að hann væri strengjabrúða auðkýfingsins Ihors Kolomoisky, sem stóð straum af kosningabaráttu hans og er eigandi sjónvarpsstöðvarinnar sem sýndi þætti Zelenskís.
Zelenskí afsannaði þá kenningu að vissu leyti þegar hann beitti sér gegn því að bankinn PrivatBank, sem var í eigu Kolomoisky áður en hann var ríkisvæddur, yrði einkavæddur á ný.
Zelenskí fæddist í austurhluta Úkraínu árið 1978. Hann og fjölskylda hans eru gyðingar og rússneska er þeirra móðurmál.
Rússneska tungan hefur lengi verið það sem rússnesk yfirvöld telja að skilji héruðin Dontesk og Luhansk í austurhluta Úkraínu frá landinu og sé til marks um að umrædd héruð tilheyri í raun Rússlandi. Zelenskí hefur barist fyrir hinu gagnstæða.
Hann lauk laganámi við háskólann í Kænugarði en beindi kröftum sínum svo að afþreyingargeiranum. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Þjónn fólksins (e. Servant of the people).
Í kosningabaráttunni lagði Zelenskí áherslu á tvennt. Annars vegar að binda enda á stríðið í austurhluta Úkraínu og að bjarga efnahag Úkraínu úr heljargreipum rússneskra auðmanna, svonefndra ólígarka.
Nánar má lesa um Zelenskí í Morgunblaðinu í dag.