Samkomulag um kjarnorkuvopn „óásættanlegt“

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans.
Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans. AFP

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, segir það „óásættanlegt” fyrir stjórnvöld í landinu að gera samkomulag við Bandaríkjamenn, svo að þeir gætu vistað kjarnavopn í Japan, líkt og viðrað hefur verið þar í landi eftir innrás Rússa í Úkraínu.

„Það er óásættanlegt miðað við afstöðu okkar þjóðar um að halda í meginreglurnar þrjár gegn kjarnavopnum,” sagði Kishida á japanska þinginu. Meginreglurnar fela meðal annars í sér að ekki skuli framleiða eða leyfa notkun kjarnavopna í landinu.

Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra Japans, gaf til kynna í sjónvarpsviðtali í gær að japönsk stjórnvöld ættu ekki að útiloka umræðu um vistun bandarískra kjarnavopna í landinu. Japan er undir svonefndri kjarnorkuregnhlíf Bandaríkjanna, sem felur í sér að Bandaríkin ábyrgjast varnir landsins með kjarnavopnum ef annað þrýtur.

Sum lönd Atlantshafsbandalagsins (NATO) hafa leyft bandarísk kjarnavopn í löndunum sínum í samræmi við varnarstefnu NATO, sem áskilur sér rétt til þess að verjast innrás með öllum ráðum. Hins vegar ríkir mikil leynd yfir fjölda þeirra og staðsetningu. Auk þess búa NATO-ríkin Bretland og Frakkland yfir eigin kjarnorkuherafla.

Japan er eina landið sem kjarnavopnum hefur verið beitt gegn í ófriði, svo umræða um þau er þar afar viðkvæm. Sjálfur situr Kishida á þingi fyrir Hiroshima, þar sem fyrstu kjarnorkusprengjunni var varpað árið 1945. Nokkrum dögum síðar lýstu Japanir yfir skilyrðislausri uppgjöf og lauk síðari heimsstyrjöld þar með.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert