Rússar vilja ná samkomulagi við Úkraínu og binda enda á deilu ríkjanna, að sögn rússnesks samningamanns.
Innrás Rússa í Úkraínu hefur núna staðið yfir í fimm daga.
„Það er engin spurning að það þjónar okkar hagsmunum að ná einhvers konar samkomulagi eins fljótt og mögulegt er,” sagði Vladimir Medinskí, aðstoðarmaður forsetans Vladimírs Pútíns, í sjónvarpsviðtali.
Hann er staddur í Hvíta-Rússlandi þar sem Úkraínumenn og Rússar ætla að ræðast við.
Hann bætti við að hann ætti von á því að viðræðurnar hefjist um hádegi að staðartíma, eða um níuleytið að íslenskum tíma.
Samninganefnd Úkraínu krefst þess að vopnahlé taki gildi þegar í stað og að hersveitir Rússa yfirgefi landið.