Trójuhestur Rússa?

Mótmælendur í Malí í Vestur-Afríku halda á borða sem segir: …
Mótmælendur í Malí í Vestur-Afríku halda á borða sem segir: „Takk Wagner“, eftir að Frakkar ákváðu að fara með herlið sitt, þann 19. febrúar. AFP

Wagner-málaliðarnir frá Rússlandi eru nú taldir vera í Úkraínu með það verkefni að ráða forsetann Volodimír Selenskí af dögum. Þeir eru sagðir skæruliðahópur Pútíns, en Rússlandsforseti hefur neitað öllum tengslum við hópinn.

Vesturlönd hafa lengi talið að hópurinn sé trójuhestur sem Pútín noti til að auka áhrif sín og ganga þeirra erinda sem hann þarfnast en vill ekkert endilega kannast við.

Wagner-málaliðarnir eru hvergi skráðir sem löglegt fyrirtæki og hafa verið einhvers konar „draugastarfsemi“, sem erfitt er að ná böndum yfir.

Upptökin

Talið er að Wagner-hópurinn hafi verið stofnaður í Rússlandi árið 2014 og notaður við innlimun Rússa á Krímskaganum. Þá hafi þeir unnið með aðskilnaðarsinnum þegar Rússar réðust inn í Donbas-héruðin sama ár.

Þeir eru taldir sinna hættulegri verkefnum og undirbúa aðgerðir í kyrrþey fyrir rússnesk yfirvöld.

Talið er að Pútín hafi veðjað á sambærilega atburðarás og árið 2014 þegar málaliðarnir voru sendir inn í Úkraínu á svæði aðskilnaðarsinna, líklega tveimur mánuðum fyrir innrásina í þessum mánuði.

Evrópusambandið tilkynnti að ekki yrði meiri hernaðarþjálfun í Mið-Afríkulýðveldinu ef …
Evrópusambandið tilkynnti að ekki yrði meiri hernaðarþjálfun í Mið-Afríkulýðveldinu ef þarlendir hermenn hættu ekki samvinnu við rússnesku Wagner-málaliðana. AFP

Sýrland

Hópurinn hefur einnig verið tengdur við hernaðaraðstoð Rússa við Assad Sýrlandsforseta frá árinu 2015 sem hefur eflt tengsl Rússa á svæðinu, en þeir eru enn með tvær herstöðvar í Sýrlandi.

Rússneska Tass-fréttastofan hafði eftir varnarmálaráðherranum, Sergei Sjoígú, í ágúst að Rússar hefðu prófað nýjustu vopn sín í Sýrlandi. Einnig hefur verið haft eftir embættismönnum að tekið hafi verið eftir „draugaher“ rússneskra málaliða tengdum Wagner-hópnum, sem hafi sent málaliða til Úkraínu á síðustu mánuðum.

Efnahagsleg tengsl Rússa við Sýrlendinga hafa einnig aukist og á undanförnum árum hafa margir samningar tekist milli Damaskus og Moskvu. Til að mynda tók rússneska fyrirtækið Strojtransgas yfir stærstu höfnina í Tartus til 49 ára og frá 2019-20 fengu fjölmörg rússnesk fyrirtæki leyfi til olíuborunar á svæðinu án þess að borga skatta til sýrlenskra stjórnvalda.

Athygli hefur einnig vakið samkvæmt APN-fréttaveitunni að nokkur þeirra fyrirtækja sem fá þessa olíuviðskiptasamninga eru alveg óþekkt, m.a. fyrirtækin Capital, Mercury og Veleda.

Menningarleg áhrif Rússa í Sýrlandi eru einnig mikil og myndir af Pútín hanga víða á svæðum nálægt herstöðvum Rússa og í skólum er núna möguleiki að læra rússnesku sem annað tungumál og meira en 100 skólar kenna rússnesku.

Afríka

Wagner-hópurinn hefur einnig haft mikil tengsl við Afríku og er það talið tengjast ásókn Pútíns í meiri áhrif í heimsálfunni. Í síðustu viku tilkynnti Evrópusambandið að refsiaðgerðum yrði beitt gegn Wagner-málaliðunum fyrir að fremja mannréttindabrot í Mið-Afríkulýðveldinu og víðar í álfunni.

Ákveðið var að hætta hernaðarþjálfun hermanna Mið-Afríkulýðveldisins vegna tengsla þeirra við Wagner-hópinn, sem hefur verið tengdur svæðinu frá 2017. Mikill órói hefur ríkt í Mið-Afríkulýðveldinu frá 2013.

Forsetanum François Bozizé var steypt af stóli árið 2016 og Touadéra tók þá við, en hefur átt í erfiðleikum að ráða við uppreisnarmenn þrátt fyrir að herlið Frakka og Sameinuðu þjóðanna hafi stutt hann. Uppreisnarmennirnir eru sagðir hafa  náð meiri árangri með stuðningi Wagner-málaliðanna. Frakkar yfirgáfu svæðið í síðustu viku.

Í fyrrverandi nýlendu Frakka, Malí, hafa samskiptin við fyrrverandi nýlenduherrana hrakað undanfarin ár eftir að her Malí steypti forsetanum Ibrahim Boubacar Keita af stóli í ágúst 2020. Aukin umsvif íslamskra hryðjuverkahópa hafa verið í landinu og talið er að tenging Wagner-málaliða Rússa sé beintengd við átökin á svæðinu.

Utanríkisráðherra Frakka, Jean-Yves Le Drian, sagði í janúar að stjórnin í Malí væri ekki lögleg og árásir á borgara færu versnandi, en stjórnarliðar segja að vera Frakka og Evrópusambandsins í landinu hafi ekkert gert fyrir öryggi borgaranna.

Dauði blaðamanns

Mikla athygli vakti þegar rúss­neski rann­sókn­ar­blaðamaður­inn Max­im Borod­in lést eftir að hafa fallið fram af svölum á fimmtu hæð heimilis síns í Jekaterínbúrg í Rússlandi. Íbúð hans var læst, svo yfirvöld töldu að um sjálfsvíg hefði verið að ræða.

Vinir hans og ritstjóri á Noví Den sögðu slíkt ekki koma til greina, því hann hefði ekki haft neina ástæðu til að svipta sig lífi. Þeir töldu dauðsfallið tengjast rannsókn Borodin á Wagner málaliðunum sem voru þá í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert