Bretar taka við fleira flóttafólki frá Úkraínu

Flóttafólk frá Úkraínu við landamæri Póllands.
Flóttafólk frá Úkraínu við landamæri Póllands. AFP

Bretar geta tekið á móti að minnsta kosti 200 þúsund flóttamönnum frá Úkraínu eftir að reglum um vegabréfsáritanir var breytt. Þetta staðfesti Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, við blaðamenn í heimsókn sinni til Póllands. BBC greinir frá.

Með breytingunum geta nánir ættingjar Úkraínumanna sem búsettir eru í Bretlandi, einnig komið til Bretlands án þess að sækja sérstaklega um vegabréfsáritun. Þar á meðal foreldrar, ömmur og afar, börn eldri en 18 ára og systkini.

Þá verður fyrirtækjum og einstaklingum boðið að styrkja Úkraínumenn sem koma til landsins, en um er að ræða verkefni þar sem stutt er við bakið á einstaklingum.

Johnson gaf það einnig út að Bretar myndu veita 220 milljónir punda í neyðar- og mannúðaraðstoð til Úkraínu.

Bresk stjórnvöld höfðu fengið á sig gagnrýni

Breytingarnar voru gerðar eftir að bresk stjórnvöld fengu á sig gagnrýni fyrir að ætla ekki að veita jafn mikla mannúðaraðstoð og Evrópusambandsríkin.

Talið er að um sjö milljónir manna hafi hrakist að heiman og á flótta vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Samkvæmt skráningum Sameinuðu þjóðanna hafa um 500 þúsund manns nú þegar flúið frá Úkraínu. Þar af um 280 þúsund manns til Póllands.

Ríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu án þess að gera kröfu um að þeir sæki um hæli, að minnsta kosti í þrjú ár.

Johnson ræddi við blaðamenn í Póllandi.
Johnson ræddi við blaðamenn í Póllandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert