Fjórir starfsmenn sögðu upp

Gerhard Schröder, fv. kanslari Þýskalands, situr í stjórnum tveggja rússneskra …
Gerhard Schröder, fv. kanslari Þýskalands, situr í stjórnum tveggja rússneskra orkurisa. AFP

Fyrrverandi kanslari Þýskalands, Gerhard Schröder, hefur ekki skorið á tengsl sín við Kreml og hefur neitað að setja ábatasama stöðu sína í rússneskum orkufyrirtækjum í uppnám. 

Albrecht Funk, sem hefur verið skrifstofustjóri Schröder í meira en 20 ár, hefur sagt upp störfum vegna afstöðu yfirmannsins, þegar í ljós kom að Schröder myndi ekki segja störfum sínum lausum í orkufyrirtækjunum Rosneft og Gazprom eftir innrás Rússa í Úkraínu er haft eftir þýsku fréttaveitunni Pioneer í dag. Þrír aðrir starfsmenn skrifstofunnar hættu einnig störfum vegna málsins.

Peningalegir hagsmunir

Gerhard Schröder hefur verið stjórnarformaður í stjórn Rosneft frá 2017 og var tilnefndur stjórnarformaður Gazprom í byrjun síðasta mánaðar. Í síðustu viku kom frekar óljós tilkynning frá Schröeder þar sem hann fordæmdi innrásina í Úkraínu, en hélt því fram að báðir aðilar í deilunni hefðu gert mistök. Við sama tilefni sagði hann einnig að Nató væri að seilast of langt austur sem væri klárlega ögrun við Rússa.

„Skilaboðin þurfa að vera ótvíræð“

Yfirlýsing Schröder kom eftir margra vikna þrýsting á hann að hætta beinni þátttöku í rússnesku orkurisunum, en hann hefur ekki gefið eftir. Kröfur eru uppi um að refsa Schröder með því að neita honum um eftirlaun og ýmis fríðindi sem hann á rétt á sem fyrrverandi kanslari. Framkvæmdastjóri Sósíaldemókrata, Lars Klingbeil, biðlaði til Schröder um að skera á öll tengsl við Kreml. „Það er löngu kominn tími til að enda öll viðskiptatengsl við Pútín,“ skrifaði hann á Facebook og bætti við að skilaboðin til Rússa yrðu að vera ótvíræð.

Aukinnar hörku Þjóðverja gagnvart Rússum eftir innrásina er farið að gæta í þjóðfélaginu. Í dag rak Fílharmoníuhljómsveitin í München stjórnanda sinn, Valery Gergiev, eftir að hann neitaði að fordæma Pútín og í gær sleit knattspyrnuliðið Schalke 04 samstarfi sínu við orkufyrirtækið Gazprom.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert