Gengu út þegar Lavrov ávarpaði ráðstefnuna

Salurinn tæmdist þegar ávarp Lavrov var spilað.
Salurinn tæmdist þegar ávarp Lavrov var spilað. AFP

Salurinn var fljótur að tæmast þegar Sergei Lavrov rússneski utanríkisráðherrann ávarpaði ráðstefnu um afvopnunarmál í Genf fyrr í dag. Rétt áður en myndbandsupptaka af Lavrov var spiluð reis fjöldi fólks úr sætum sínum og yfirgaf salinn í mótmælaskyni vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Í hópi þeirra sem gekk út úr herberginu var úkraínski sendiherrann og diplómatar frá fjölda landa.

Fólkið safnaðist síðan saman fyrir framan úkraínska fánann og mikil fagnaðarlæti brutust út sem mátti heyra í salnum á meðan ræða Lavrovs var spiluð. Einungis örfáir sátu eftir í salnum, voru það meðal annars sendiherrar frá Jemen, Sýrlandi, Venesúela og Túnis.

„Það er mikilvægt að sýna samstöðu með úkraínskum vinum,“ sagði Yann Hwang franski sendiherrann.

Lavrov hafði boðað komu sína á ráðstefnuna í Genf en hætti við á síðustu stundu, og sögðu stjórnvöld í Moskvu að ástæðuna mætti rekja til refsiaðgerða Evrópulanda.

Sendiherrarnir og diplómatarnir standa fyrir aftan fánann til að sýna …
Sendiherrarnir og diplómatarnir standa fyrir aftan fánann til að sýna samstöðu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert