Sagði mistök hafa orðið hjá báðum aðilum

Mikil pressa er á Schröder að skera á tengsl sín …
Mikil pressa er á Schröder að skera á tengsl sín við rússnesku orkurisana Gazprom og Rosneft. AFP

Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslari Þýskalands sem hefur gætt hagsmuna rússneskra orkurisa, sagði innrás Rússa í Úkraínu ekki réttlætanlega en það þyrfti að sjá málin frá öllum hliðum og ræða betur við Moskvu.

Schröder, sem er mjög umdeildur í Þýskalandi, sagði að „stríðið og þjáningar fólksins í Úkraínu þarf að stöðva sem fyrst“, og bætti við að það væri „á ábyrgð rússneskra yfirvalda“.

Mistök gerð hjá báðum aðilum

Hann bætti síðan við á LinkedIn síðu sinni að „mistök hefðu hafa gerð hjá báðum aðilum“, og átti þar við samskipti Rússa við Vesturlönd undanfarin ár.

„En samt réttlæta öryggisáhyggjur Rússa ekki hernaðarátök,“ skrifaði hann og bætti við að þótt refsiaðgerðir Vesturlanda væru nauðsynlegar væri mikilvægt að „stjórnmálaleg, efnahagsleg og menningarleg tengsl Evrópu og Rússa yrðu ekki rofin með öllu“.

Eina vonin um frið

Hann talaði um að þessi tengsl væru, „þrátt fyrir erfiða stöðu núna“, grundvöllur þess að von væri um „samræður um að friður og öryggi í álfunni væru möguleg í Evrópu aftur“.

Hinn 77 ára Gerhard Schröder er stjórnarformaður rússneska orkurisans Rosneft og í byrjun febrúar var hann tilnefndur til formennsku í stjórn orkurisans Gazprom. Schröder hefur haldið nánum vinskap við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Mikil pressa hefur verið á Schröder að skera á viðskiptatengsl við Rússa eftir innrásina og sérstaklega hefur það verið þyrnir í augum félaga hans í Sósíaldemókrataflokknum, og ekki síst Olaf Scholz, núverandi kanslara Þýskalands.

Vel metinn fulltrúi fyrir báða aðila

Pútín varði tilnefningu Schröders í stjórn Gazprom í heimsókn Scholz kanslara til Kreml og sagði að ef Schröder yrði valinn, „þá væri heiðarlegur maður kominn í starfið sem við metum báðir og bæði Þýskaland og Evrópubúar hefðu þá fulltrúa sem hefði áhrif og fengi upplýsingar frá Gazprom. Því bæri að fagna“.

Síðasta þriðjudag setti Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, Nord Stream 2 verkefnið í biðstöðu, en gasleiðslan nær frá Rússlandi til Þýskalands og hefur verið fimm ár í byggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert