Skipulagðar árásir á óbreytta borgara?

Rússneski flugherinn framkvæmdi miskunnarlausar árásir á óbreytta borgara í Aleppo. …
Rússneski flugherinn framkvæmdi miskunnarlausar árásir á óbreytta borgara í Aleppo. Sérfræðingar telja það geta endurtekið sig í Úkraínu. AFP

Grein­end­ur telja rúss­nesk yf­ir­völd hafa skipu­lagt aðgeðir sem fela í sér beit­ingu vopna af ásetn­ingi gegn óbreytt­um borg­ur­um. Slík­um aðferðum hafa Rúss­ar beitt áður í Sýr­landi og Tsét­sén­íu.

Þetta full­yrðir Sam Ashworth-Hayes, hjá Henry Jackson Society hug­veit­unni í Bretlandi, í grein í Spectator. Vís­ar hann til þess að Vla­dimír Pútín, for­seti Rúss­lands, hafi þegar beitt sömu orðræðu og Rúss­ar beittu til að rétt­læta mis­kunn­ar­laus­ar loft­árás­ir á Al­eppo í Sýr­landi árið 2016.

Þá verði mark­miðið að „eyðileggja borg­ir – hverfi eft­ir hverfi – þar til Selenskí for­seti [Úkraínu] gefst upp“, skrif­ar hann.

Hernaðaraðgerðir stjórn­ar Bash­ar al Assads í Sýr­landi og rúss­neskra yf­ir­valda gegn al­menn­um borg­ur­um í Al­eppo árið 2016 hafa verið tald­ar hluti af skipu­lagðri her­ferð með mark­mið um að draga úr stuðningi al­mennra borg­ara við sýr­lenska upp­reisn­ar­menn og fá þá til að yf­ir­gefa borg­ina til að forða al­menn­um borg­ur­um frá frek­ari harm­leik, eins og fram kom í um­fjöll­un New York Times og Guar­di­an.

Sýrlenskur drengur grætur við lík ættingja síns sem féll í …
Sýr­lensk­ur dreng­ur græt­ur við lík ætt­ingja síns sem féll í loft­árás í Al­eppo 2016. AFP

„Í Sýr­landi gerðu Rúss­ar loft­árás­ir á sjúkra­hús, bíla­lest­ir með birgðir til mannúðar­mála og borg­ara­leg skot­mörk sem þeir full­yrtu að hjálpuðu upp­reisn­ar­mönn­um,“ rita grein­end­ur stofn­un­ar­inn­ar Center for Stra­tegic and In­ternati­onal Studies, Seth G. Jo­nes og Joseph S. Bermu­dez, á vef henn­ar.

Vekja þeir at­hygli á að Rúss­ar hafa mis­kunn­ar­laust beitt miklu afli gegn víga­mönn­um og al­menn­um borg­ur­um í Tsét­sén­íu og Sýr­landi og muni hik­laust beita sömu aðferðum á ný í Úkraínu.

Þeir segja jafn­framt að aðgerðir rúss­neska hers­ins verði „af­drátt­ar­laus­ar og grimm­ar“ með til­heyr­andi harm­leik fyr­ir íbúa helstu borga Úkraínu.

Tug­ir þúsunda í valn­um í Grosní

Fjöldi stórra borga er í Úkraínu og get­ur tekið tölu­verðan tíma fyr­ir Rússa að ná stjórn á borg­un­um og mun mann­fall vera um­fangs­mikið að mati grein­end­anna.

Vakti Jo­nes í janú­ar at­hygli á því að í fyrra Tsét­sén­íu­stríðinu hafi rúss­neski her­inn verið lengi að ná yf­ir­ráði yfir borg­inni Grosní, frá 31. des­em­ber 1994 til 9. fe­brú­ar 1995, en á þeim tíma var íbúa­fjöld­inn inn­an við 400.000 og er talið að allt að 27 þúsund óbreytt­ir borg­ar­ar hafi legið í valn­um eft­ir átök­in.

Í seinna Tsét­sén­íu­stríðinu var bar­átt­an um borg­ina einnig tíma­frek og stóð yfir frá des­em­ber 1999 til fe­brú­ar 2000. Her­menn Rúss­lands fóru aft­ur á móti ekki inn í borg­ina fyrr en eft­ir að stór­skota­lið hafði skotið á borg­ina í um fimm mánuði og er talið að um fimm til átta þúsund óbreytt­ir borg­ar­ar hafi fallið í þeim átök­um.

Ætti ekki að ger­ast aft­ur

Í Kænug­arði búa um þrjár millj­ón­ir, 1,5 millj­ón í Karkív, um millj­ón búa í Ódessa, millj­ón í Dnípro, 750 þúsund íbú­ar eru í Sa­porisjsía og um hálf millj­ón í Maríu­pol. Verði átök­in í lík­ingu við þau sem voru í Al­eppo og Grosní er ekki ólík­legt að fleiri munu líggja í valn­um en sést hef­ur um ára­bil.

Þá tel­ur Jo­nes mik­il­vægt að starf fé­laga­sam­taka og Alþjóðaglæpa­dóm­stóls­ins verði sam­ræmt og skipu­lagt þannig að skrá­sett­ir verði all­ir stríðsglæp­ir sem beitt­ir eru úkraínsku þjóðinni.

„Það sem kom fyr­ir sýr­lensku þjóðina ætti ekki að ger­ast aft­ur,“ skrif­ar hann.

Mikið eyðilögð íbúðabygging í Kænugarði eftir loftárás Rússa.
Mikið eyðilögð íbúðabygg­ing í Kænug­arði eft­ir loft­árás Rússa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert