Þjóðin muni berjast til síðasta blóðdropa

Olga Díbrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu …
Olga Díbrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Olga Dí­brova, sendi­herra Úkraínu gagn­vart Íslandi, segist vera örugg um það að Rússar nái ekki Kænugarði á sitt vald, þar sem hún segir stríð ekki unnin með skotvopnum eða sprengjum, heldur með anda þjóðarinnar.

Ef þörf krefur muni úkraínska þjóðin berjast til síðasta blóðdropa.

Díbrova hefur starfað sem sendiherra í tvö ár með aðsetur í Helsinki en hún afhenti Guðna Th. Jó­hann­es­syni for­seta Íslands trúnaðarbréf sitt í dag. Þá átti hún einnig fund með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.

Sameinuð sem aldrei fyrr

„Úkraínska þjóðin er innblásin og sameinuð sem aldrei fyrr, meira að segja á samfélagsmiðlum sér maður að þjóðin er tilbúin að berjast. Já, íbúar fela sig vegna sprengjuárásanna og sprenginganna, en þeir eru ekki hræddir,“ sagði Díbrova í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í dag.

„Þegar þú finnur að sannleikurinn er þín megin, þá hagarðu þér ekki eins og hugleysingi, heldur finnur að hugrekkið er til staðar.“

Eins og mbl.is hefur greint frá ákvað forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, að halda kyrru fyrir í heimalandinu, þrátt fyrir boð um aðstoð til flótta. Hann hefur notað samfélagsmiðla til að upplýsa bæði úkraínsku þjóðina og allan heiminn daglega um stöðu stríðsins.

Að sögn Díbrovu hefur þetta aukið samheldni og hughreyst úkraínsku þjóðina, sem sé innblásin af baráttuhug forsetans.

Þórdís Kolbrún og Olga Díbrova áttu fund í dag.
Þórdís Kolbrún og Olga Díbrova áttu fund í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hvað getur íslenska þjóðin gert?

Spurð hvað Íslendingar geti gert til þess að styðja við úkraínsku þjóðina segir Díbrova að halda þurfi áfram þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í hingað til.

Hún segist hafa orðið djúpt snortin af mótmælum sem haldin voru á Íslandi til stuðnings Úkraínu.

Díbrova segir einnig mikilvægt að íslenskir listamenn og íþróttafólk haldi áfram að sniðganga Rússa, sem sendi skýr skilaboð til rússnesku þjóðarinnar um að það sem leiðtogi þeirra sé að gera sé virkilega rangt.

„Við þiggjum frekari aðstoð frá íslenskum atvinnurekstri og frá Íslendingum hvað varðar mannúðaraðstoð,“ segir Dibrova og hvetur Íslendinga til þess að styrkja með frjálsum framlögum úkraínska herinn og þjóðina.

Hún segir að hægt sé að finna styrktarreikninga á samfélagsmiðlum, þar sem tekið er á móti frjálsum framlögum.

Átti erfitt með að halda aftur tárunum

Að sögn sendiherrans átti hún erfitt með að halda aftur tárunum fyrstu dagana eftir innrásina í síðustu viku. Hún á fjölskyldu og vini sem enn eru stödd í Úkraínu. 

„Mér fannst eins og við værum að missa líf okkar og móðurland. En nú erum við mjög innblásin af hugrekkinu sem herinn okkar hefur sýnt.

Núna er ég mjög ákveðin, ég hef ýmislegt að gera og ég hugsa bara um að vinna, þar til við losum landið okkar og allan heiminn frá þessari illsku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert