Þjóðir sem senda vopn og aðstoð til Úkraínu

Fjöldi ríkja hafa byrjað að senda vopn eða aðstoð til …
Fjöldi ríkja hafa byrjað að senda vopn eða aðstoð til Úkraínu. AFP

Fjölmörg ríki eru byrjuð að senda hergögn eða mannúðaraðstoð til Úkraínu síðan Rússar réðust inn í landið á fimmtudaginn.

Bandaríkin, Kanada og nítján Evrópuríki hafa hingað til brugðist við ákalli Úkraínumanna um hergögn.

Washington sendir aukalega 350 milljónir bandaríkjadala í hernaðaraðstoð til Kænugarðs en það jafngildir um 45 milljörðum íslenskra króna. Þá sendir Kanada banvæn vopn og fjármagn til Kænugarðs.

Þá hefur Ísland lofað einnar milljón evra framlagi til alþjóðlegs mannúðarstarfs auk þess að lána fraktflugvél til að aðstoða Úkraínu.

Rjúfa sögulega afstöðu

Í fyrsta sinn í sögunni fjármagnar Evrópusambandið kaup og afhendingu vopna eftir að leiðtogar samþykktu að flytja vopn að andvirði 450 milljónir evra, sem jafngildir um 66 milljörðum íslenskra króna, til Kænugarðs.

Þá hafa stjórnvöld í Berlín breytt langvarandi stefnu sinni um að flytja ekki vopn til átakasvæða með því að heita því að senda Úkraínu 1.000 flaugar gegn skriðdrekum, 500 flugskeyti og niu sprengjuvörpur. Berlín gefur einnig brynvarin farartæki og eldsneyti.

Svíþjóð er einnig að rjúfa sögulega hlutlausa afstöðu sína með því að senda 5.000 skriðdrekavopn til Úkraínu og senda Danir 2.700 til viðbótar.

Fleiri þjóðir senda aðstoð

Þjóðir á borð við Frakkland, Holland, Tékkland og Belgíu hafa einnig ákveðið að senda skotvopn og eldsneyti til Úkraínu.

Þá senda Noregur, Portúgal, Króatía og Grikkland herklæði til landsins.

Rúmenía, sem á landamæri að Úkraínu, hefur boðist til að meðhöndla særða borgara á ellefu hersjúkrahúsum sínum.

Þær þjóðir sem hafa ákveðið að verja fjármagni í mannúðaraðstoð til Úkraínu auk Íslands eru Ítalía, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Noregur, Holland, Danmörk, Spánn, Ísrael, Írland, Tyrkland og Grikkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert