Búist er við því að ríkisstjórn Bandaríkjanna muni banna flugferðir rússneskra flugvéla um lofthelgi sína. Þvinganir Vesturlanda gegn Rússlandi muni þannig herðast enn frekar.
Frá þessu greinir dagblaðið Wall Street Journal.
Heimildir blaðsins herma að vænta megi tilskipunar þessa efnis jafnvel á næsta sólarhringnum.
Fari svo munu Bandaríkin fylgja í kjölfar fyrri lofthelgisbanna Evrópusambandsríkja og Kanada.
Rússneska ríkisflugfélagið Aeroflot tilkynnti á sunnudag að það hefði aflýst öllum flugferðum til Evrópu vegna bannsins.