„Enginn mun fyrirgefa, enginn mun gleyma“

AFP

Eldflaugaárás rússneska hersins, sem beint var að helsta sjónvarpsturni Kænugarðs síðdegis í gær, varð fimm manns að bana og særði fimm til viðbótar. Útsendingar úkraínskra sjónvarpsstöðva rofnuðu í kjölfarið en komust aftur á í gærkvöldi.

Fleiri en eitt hundrað borgarar hafa látið lífið í landinu frá því Rússar réðust inn í Úkraínu aðfaranótt fimmtudags. Ekki er ljóst hversu margir hermenn hafa látist í styrjöldinni undanfarna daga, en úkraínsk stjórnvöld fullyrtu í gær að 5.700 manns úr herliði Rússa hefðu fallið.

Önnur eldflaug frá rússneska hernum hæfði Frelsistorgið í Karkív í gærmorgun, í miðri annarri stærstu borg Úkraínu, en sú árás varð að minnsta kosti tíu manns að bana. Átta til viðbótar eru sagðir hafa látist í loftárás á íbúðabyggingu í borginni.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í yfirlýsingu að árásin á torgið væri hryðjuverk og að Rússar hefðu enga dul reynt að draga á það. „Eftir þetta er Rússland hryðjuverkaland. Enginn mun fyrirgefa, enginn mun gleyma,“ sagði hann.

Undir kvöld hófu Rússar aftur árásir sínar og rigndi sprengjum yfir Kænugarð og fleiri borgir eins og fyrri kvöld. Fyrirhugað er að friðarviðræður ríkjanna tveggja hefjist að nýju í dag, en fyrsta lotan í viðræðunum var haldin við landamæri Hvíta-Rússlands og Úkraínu á mánudag og ræddu sendinefndirnar saman í sex klukkustundir. Stjórnvöld í Kína hafa boðist til að miðla sáttum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert