Fagnaðarlæti er fyrsti plastsáttmálinn var samþykktur

Því er spáð að magn plastrusl sem berst í hafið …
Því er spáð að magn plastrusl sem berst í hafið þrefaldist fyrir árið 2040 og hafa stjórnvöld verið undir þrýstingi um sameiginleg viðbrögð við vandanum. Ljósmynd/Simon Maina

Sameinuðu þjóðirnar samþykktu í dag að hefja samningagerð um fyrsta alþjóðlega sáttmálann um plastmengun, sem fagnað hefur verið sem byltingarkenndum áfanga í loftslags- og umhverfismálum.

Tæplega 200 þjóðir á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí samþykktu einróma að stofna milliríkjanefnd til að semja og ganga frá lagalega bindandi plastsáttmála fyrir árið 2024.

Því er spáð að magn plastrusls sem berst í hafið þrefaldist fyrir árið 2040 og hafa stjórnvöld verið undir þrýstingi um sameiginleg viðbrögð við vandanum.

Forseti umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna, Espen Barth Eide, lýsti því yfir í dag að ályktunin hafi verið samþykkt og við það brutust út fagnaðarlæti og lófaklapp í samkomusalnum.

Espen Barth Eide á þinginu í Naíróbí í dag.
Espen Barth Eide á þinginu í Naíróbí í dag. AFP

Mikilvægasta umhverfisákvörðun SÞ í mörg ár

Eide, sem er umhverfis- og loftslagsmálaráðherra Noregs, lýsti deginum sem sögulegum og sagði alla sem í salnum voru geta verið stolta.

Í sáttmálanum verður ekki einungis miðað við plastflöskur og plaströr, heldur öll þau form sem plast er framleitt í. Þar með talið ósýnilegt örplast sem mengar loftið, jarðveginn og fæðukeðjuna.

Sáttmálanum hefur verið lýst sem „mikilvægustu umhverfisákvörðun sem Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið í mörg ár“, af mörgum helstu náttúruverndarsamtökum.

Sáttmálinn nær yfir allan lífferil plasts

„Við stöndum á tímamótum í sögunni þegar metnaðarfullar ákvarðanir sem teknar eru í dag geta komið í veg fyrir að plastmengun stuðli að hruni vistkerfis plánetunnar okkar,“ sagði Marco Lambertini frá Alþjóðlega náttúruverndarsjóðnum.

Umfang sáttmálans nær yfir allan lífsferil plasts, sem þýðir að lykilkrafa þjóða, fyrirtækja og náttúruverndarsamtaka um að geta í fyrsta sinn innleitt nýjar reglur um framleiðslu á nýju plasti, rætist.

„Þetta er skýr viðurkenning á því að allur lífsferill plasts, frá vinnslu jarðefnaeldsneytis til förgunar, skapar mengun sem er skaðleg fólki og jörðinni,“ hefur fréttastofa AFP eftir Graham Forbes frá náttúruverndarsamtökunum Greenpeace.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert