Borgarstjóri úkraínsku strandborgarinnar Mariupol í suðausturhluta landsins segir að rússneskar hersveitir hafi reynt að koma í veg fyrir að almennir borgarar kæmust burt frá borginni.
Mariupol liggur nærri svæði sem er undir stjórn aðskilnaðarsinna og Krímskaga sem Rússar tóku yfir árið 2014. Þegar átökin brutust út árið 2014 var Mariupol hernumin af aðskilnaðarsinnum um tímabil.
Markmið aðskilnaðarsinna er að umkringja borgina.
Borgaryfirvöld segja að rússneskar hersveitir hafi skotið á borgina í 14 klukkustundir samfleytt. Þá hafi þær ráðist á íbúðarhverfi, fæðingardeild og skóla í borginni. Alls hafi 42 manns slasast.
Rafmagnslaust hefur verið á nokkrum svæðum í borginni síðan á föstudag.