Pútín sker upp herör gegn frjálsum fjölmiðlum

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Ríkissaksóknari Rússlands hefur skipað fjölmiðlaeftirliti landsins að „takmarka aðgang“ að útvarpsstöðinni Ekkó Moskví og sjónvarpsstöðinni Dosjd. Þá hafa stjórnvöld bannað að minnsta kosti sex aðra rússneska fjölmiðla. 

Fullyrt er að bannið sé vegna þess að óháðir fjölmiðlar neituðu að fylgja opinberri stefnu um innrásina í Úkraínu og hafi dreift „vísvitandi röngum upplýsingum um aðgerðir rússneskra hermanna“.

Daginn eftir að bannið var lagt á Dosjd tilkynnti Tikon Dsíadkó, ritstjóri stöðvarinnar, að hann hefði flúið Rússland eins og sumir samstarfsmenn hans og sagðist vera „í hættu“.

Lögregla handtók mótmælendur í St. Pétursborg í kvöld.
Lögregla handtók mótmælendur í St. Pétursborg í kvöld. AFP

Fordæmalausar aðgerðir

Undanfarið ár hefur verið gripið til fordæmalausra aðgerða gegn sjálfstæðum og gagnrýnum röddum í Rússlandi en fjöldi fjölmiðlafólks og margir óháðir miðlar hafa verið útnefndir „erlendir umboðsmenn“ af stjórnvöldum, þar á meðal Dosjd-sjónvarpsstöðin. 

Þeir sem fá á sig þann stimpil eru skyldugir til að upplýsa um fjárframlög og merkja útgefið efni með sérstökum merkimiða eða eiga yfir höfði sér sekt. 

Stjórnvöld í Rússlandi búa sig nú undir að herða sitt lagalega vopnabúr. Frumvarp til laga sem kveður á um allt að 15 ára fangelsi fyrir hvers kyns birtingu „falsfrétta“ um rússneska herinn verður tekið fyrir á aukafundi á föstudag að sögn þingmannsins Sergei Bojarskí.  

Þá er fjölmiðlum bannað að tilkynna um dauðsföll óbreyttra borgara af völdum innrásar Rússa í Úkraínu að sögn Galínu Timtsjenkó, forstöðumanns fréttamiðilsins Medúsu. 

„Ég hef á tilfinningunni að lokamarkmið Pútíns sé að halda aðeins þeim sem eru hlynntir honum, aðrir munu neyðast til að flýja eða verður útrýmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert