Eldur kviknaði í stærsta kjarnorkuveri Evrópu

Skjáskot úr eftirlitsmyndavél við verið. Hægra megin fyrir miðju sést …
Skjáskot úr eftirlitsmyndavél við verið. Hægra megin fyrir miðju sést eldurinn loga.

Eldur kviknaði í stærsta kjarnorkuveri Evrópu í nótt eftir að Rússar réðust á verið, meðal annars með eldflaugaárásum.

Verið er staðsett rétt utan við borgina Saporisjía í suðausturhluta Úkraínu við ána Dnípró.

„Vegna stanslausra sprengjuárása óvinarins á byggingar og einingar stærsta kjarnorkuvers Evrópu, þá er kviknað í Saporisjía-orkuverinu,“ sagði Dmítró Orlóv, borgarstjóri í borginni Enerhódar sem stendur skammt frá verinu, í stuttri yfirlýsingu um miðnætti að íslenskum tíma.

Í kjölfar árásanna greindi AP-fréttastofan frá því að hærri gildi geislunar væru tekin að mælast við verið. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur síðan sagt í tilkynningu að sú sé ekki raunin.

Segjast hafa náð að tryggja öryggið

Úkraínsk stjórnvöld sögðu upp úr klukkan tvö eftir miðnætti, að íslenskum tíma, að tekist hefði að tryggja öryggi versins.

„Forstjóri versins segir kjarnorkuöryggið nú tryggt. Að sögn þeirra sem eru ábyrgir fyrir verinu, þá urðu þjálfunarbygging og rannsóknarstofa fyrir eldsvoðanum,“ sagði svo í yfirlýsingu frá Oleksandr Starúk, sem fer fyrir hernum í héraðinu.

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu sakar stjórnvöld Rússlands um „kjarnorkuhryðjuverk“ og segir það ljóst að þau vilji endurtaka hamfarirnar sem urðu eftir slysið í Tsjernóbyl-orkuverinu í Úkraínu árið 1986.

Hér má sjá beina útsendingu úr eftirlitsmyndavél við verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert