Árás Rússa á kjarnorkuverið í Úkraínu hefur vakið ugg meðal ráðamanna í Úkraínu og Vesturlöndunum og eru miklar áhyggjur uppi um að hamfarirnar sem fylgdu Tjernobyl-slysinu gætu endurtekið sig. Volodimír Selenskí forseti Úkraínumanna hefur sakað rússnesk stjórnvöld um kjarnorkuhryðjuverk.
Þá hefur Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins einnig fordæmt kæruleysi Rússa vegna árásarinnar. Hann krefst þess að Rússar leggi niður vopn og hætti stríðinu gegn nágrannaríki sínu.
„Þetta undirstrikar kæruleysi þessa stríðs og mikilvægi þess að binda enda á það, og mikilvægi þess að Rússar kalli hersveitir sínar til baka og taki þátt af alvöru í friðarviðræðum,“ sagði Stoltenberg fyrir fund utanríkisráðherra vestrænna ríkja í dag.
Eftir átök við úkraínska hermenn í nótt náðu rússneskar hersveitir loks á sitt vald Saporisjí-orkuverinu, stærsta kjarnorkuveri í Evrópu, í Úkraínu.
Í sprengjuárás Rússa í nótt kviknaði eldur í kjarnorkuverinu sem búið er að slökkva. Ekki eru nein ummerki um leka samkvæmt eftirlitsstofnunum Úkraínu.
Eldurinn í kjarnorkuverinu vekur upp óhugnanlegar minningar af Tjernobyl-slysinu árið 1986 sem varð einnig í Úkraínu. Hundruð létu lífið og geislavirkni dreifðist yfir vesturhluta Evrópu með tilheyrandi hamförum.
Í ávarpi til þjóðarinnar í kjölfar árásarinnar sagði Selenskí ekkert annað land hafa nokkru sinni skotið á kjarnorkueiningar, sem hann var fullviss um að þeir hefðu vísvitandi gert. Hann sakaði rússnesk stjórnvöld um kjarnorkuhryðjuverk og segir þau vilja endurtaka hræðilega atburðinn í Tjernobyl.
„Þetta er að gerast í fyrsta skipti í sögu okkar. Í sögu mannkynsins. Hryðjuverkaríkið grípur nú til kjarnorkuhryðjuverka.“
„Þetta eru skriðdrekar sem eru búnir hitamyndavélum, þannig þeir vita hvert þeir eru að skjóta,“ bætti hann við.