Yfirráð á úkraínska Saporisjía-kjarnorkuverinu geta reynst hættulegt vopn í höndum rússneskra stjórnvalda. Annars vegar gæti það veitt þeim stjórn yfir orkunni í Úkraínu, bæði hita og rafmagni, með tilheyrandi afleiðingum fyrir íbúa og innviði. Hins vegar gætu aukin átök á svæðinu leitt til kjarnorkuslyss.
Þetta segir Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur og fyrrverandi samskiptaráðgjafi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Afganistan.
„Þetta er auðvitað ógnvekjandi og ég held að við þurfum bara að sjá næstu daga hvernig átökin munu stigmagnast. Ég tel þó nokkuð öruggt að við séum ekki að fara að horfa upp á annað Tsjernóbyl,“ segir Brynja Huld í samtali við mbl.is.
Hún tekur fram að kjarnorkuverið sem hér um ræðir sé mun stöndugra og því eru líkur á slysi umtalsvert minni en árið 1986. Helstu kjarnorkuverasérfræðingar Evrópu séu búnir að segja slíkt hið sama.
Þá bindur hún einnig vonir við að samskiptalínur sem komið var upp á tímum Kalda stríðsins milli Kremlar og bandaríska varnarmálaráðuneytisins komi í veg fyrir óvissu og misskilning.
„Ég held að við getum reynt að treysta því í bili.“
Fyrr í dag sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að svæðisbundið loftferðabann (e. No-fly zone) eða flugbann yfir Úkraínu væri ekki í kortunum þrátt fyrir hávær áköll Úkraínumanna og fleiri sem telja refsiaðgerðir Vesturlanda ekki duga til að halda aftur af árásum Rússa.
Sér í lagi eftir atburði næturinnar og eldinn í kjarnorkuverinu.
Möguleikar á loftferðabanni hafa mikið verið í deiglunni undanfarna daga og eru skiptar skoðanir uppi um hvort að NATO ætti að lýsa því yfir eður ei. Ef það myndi raungerast væri Rússum óheimilt að fljúga yfir Úkraínu og gætu þar með ekki beitt lofthernaði sem getur verið erfitt að verjast.
Að sögn Brynju er bannið þó ekki eins einföld lausn og margir vilja halda. Ekki sé nóg að lýsa því yfir heldur þyrfti líka að fylgja því eftir með aðgerðum. Eina leiðin sem hægt væri að verja lofthelgina væri að skjóta niður loftförin sem þangað fljúga.
„Það að setja á svæðisbundið loftferðabann yfir Úkraínu mun draga þau lönd sem lýsa því yfir beint inn í hernaðarleg átök,“ segir Brynja sem veltir jafnframt upp hvernig vörnin yrði útfærð.
„Hver ætlar að verja hana, með hvaða gögnum og hvaða flugmenn verða í loftförunum sem verja lofthelgina?“ spyr hún.
Frá því að stríðið hófst hafa kenningar verið uppi um að innrás Rússa hafi verið illa skipulögð og gerð í óðagoti. Rússneski herinn sé reynslulítill og að Pútín hafi hreinlega misreiknað styrk Úkraínumanna og eigi ekki roð við her þeirra sem sé bæði reynslumeiri og á heimavelli.
Í færslu á samfélagsmiðlunum Facebook og Twitter birti Brynja Huld á dögunum stutta greiningu á innrásinni þar sem hún veltir því upp hvort að það sé rétt að halda því fram að Pútín hafi misreiknað sig.
Gæti frekar verið að Pútín sé að beita sovéskri hugmyndafræði um að senda hermenn strax inn, þreifa með átökum og skriðdrekum og öllu tiltæku til að finna veikleika í vörn Úkraínumanna. Taktík sem Vesturlöndin beita almennt ekki vegna mikils mannfalls ef slíkri strategíu er beitt.
Spurð hvort þessi greining eigi enn við í ljósi atburða síðustu daga og hvort Pútín eigi enn möguleika á að taka yfir Úkraínu, svarar Brynja því játandi.
„Mér sýnist það alveg. Ef maður skoðar kort yfir það hvernig innrásinni miðar sér maður að Rússar eru að ná meira og meira landsvæði. Það tekur tíma að ná yfirráðum.“
Þá bendir hún jafnframt á að Pútín sé að styrkja hersveitir sínar enn frekar og að bílalestir af hergögnum séu á leið til Úkraínu frá Rússlandi.
„Við vitum ennþá ekki hver áætlun Pútíns er. Við vitum að hann vill alla Úkraínu en við vitum ekki nákvæmlega hvert hans lokamarkmið er. Ætlar hann að ná yfir landsvæði Eystrasaltsríkjanna? Ætlar hann að setja upp gamla Sovétið? Við getum spáð í taktíkinni en þegar uppi er staðið getum við ekki borið árangurinn hingað til saman við markmið Pútíns, því það er ekki dagljóst nákvæmlega hvað hann ætlar sér.“