Krefst harðari refsiaðgerða

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu krefst enn harðari refsiaðgerða gegn Rússum.
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu krefst enn harðari refsiaðgerða gegn Rússum. AFP

Úkraínumenn krefjast þess að Vesturlönd beiti Rússa enn harðari refsiaðgerðum í kjölfar árásar á Sa­porisjí-kjarnorku­ver­ið í nótt sem þeir hafa nú tekið yfir.

Eldur kviknaði í orkuverinu í kjölfar sprengjuárásar Rússneskra hersveita en búið er að slökkva hann núna. Úkraínskar eftirlitsstofnanir segja engan leka hafa mælst.

„Nauðsynlegt er að herða refsiaðgerðir gegn kjarnorkuhryðjuverkaríkinu, tafarlaust,“ sagði Volodimír Selenskí forseti Úkraínu og vísar þá til Rússlands. Hann óttast að frekari átök við orkuverið geti leitt til kjarnorkuslyss.

Hefði mögulega orðið endirinn á sögu Evrópu

Í ávarpi sínu í morgun sagði hann það aldrei áður hafa komið fyrir í allri mannkynssögunni að ráðist væri á kjarnorkuver. „Þessi nótt hefði geta verið endirinn á sögu Úkraínu og Evrópu,“ sagði Selenskí. 

Hann sakaði Rússa um að vilja endurtaka harmleikinn frá Tjernobyl árið 1986 og sagði slys í Sa­porisjí-kjarnorkuverinu, sem er það stærsta í Evrópu, geta orðið allt að sex sinnum verra.

„Rússnesku skriðdrekarnir vissu hvað þeir voru að skjóta á, þeir miðuðu beint á kjarnorkuverið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert