Meirihluti úkraínska flughersins enn tiltækur

Sukhoi Su-27 orrustuþota úkraínska flughersins.
Sukhoi Su-27 orrustuþota úkraínska flughersins. AFP

Töluverður meirihluti flugvéla úkraínska flughersins er enn reiðubúinn til notkunar gegn herliði Rússlands, þegar níu dagar eru liðnir frá innrás Rússa.

Þetta hefur blaðamaður Washington Post eftir háttsettum embættismanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins í dag, en ráðuneytið hefur að undanförnu haldið daglega upplýsingafundi fyrir blaðamenn um stöðuna í Úkraínu hverju sinni.

Margir hernaðarsérfræðingar hafa furðað sig á því hve lítið hafi sést til rússneska flughersins, en búist var við því að Rússar myndu tryggja sér yfirburði í lofti á fyrstu dögum innrásarinnar.

Sú hefur ekki orðið raunin og enn er barist um yfirráð í háloftunum að mati sérfræðinga í Pentagon.

Yfirvöld úkraínska hersins gáfu út þessa mynd í dag, sem …
Yfirvöld úkraínska hersins gáfu út þessa mynd í dag, sem á að sýna flak orrustuþotu af gerðinni Sukhoi Su-25 fyrir utan borgina Volnóvaka. AFP

92% komin inn fyrir

Á fundinum í dag kom einnig fram að 92% þess vígbúnaðar sem Rússar höfðu komið upp á landamærunum fyrir innrásina, væri nú inni í Úkraínu. Í gær mat Pentagon það svo að hlutfallið væri um 90%.

Enn fremur er ljóst að ekki hefur orðið vart við neinn leka geislavirkra efna frá Saporisjía-kjarnorkuverinu. Svo virðist sem Rússar séu með verið á sínu valdi, eftir að hafa ráðist að því með eldflaugum í gær með þeim afleiðingum að eldsvoði kom upp.

Embættismaðurinn telur líklegt að með þessu vilji Rússar öðlast meiri völd yfir daglegu lífi borgara, með því að stýra raforku til þeirra.

Fimm hundruð eldflaugar

Áfram heldur sókn Rússa að borginni Maríupól í suðausturhluta landsins með tilheyrandi eldflaugaárásum. Þá berst herlið Úkraínumanna við Rússa nærri borginni Míkólaív, á sama tíma og Rússar virðast reyna að nálgast stóru hafnarborgina Ódessa.

Tekið er fram að Rússar hafi skotið fimm hundruð eldflaugum að Úkraínu og þeim hafi fjölgað um í kringum tuttugu frá í gær.

Embættismaðurinn segir Rússland ráðast á sjúkrahús, skóla og íbúðabyggðir í Úkraínu.

„Þeir eru að drepa borgara. Þeir eru að særa borgara,“ segir hann.

Afleiðingar sprengjuárása Rússa í íbúðahverfi í borginni Tsjerníhiv í dag.
Afleiðingar sprengjuárása Rússa í íbúðahverfi í borginni Tsjerníhiv í dag. AFP

Svöruðu símanum

Ný neyðarlína á milli Pentagons og rússneska varnarmálaráðuneytisins er nefnd á fundinum og hún er sögð virðast virka.

Í fyrstu tilraun línunnar, segir embættismaðurinn, „þá svöruðu þeir símanum“.

Hann segir þá engin merki um að Hvíta-Rússland sé að búa sig undir að senda herlið inn í Úkraínu til aðstoðar Rússum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert