Bandaríkin hafa ákveðið að beita nýjum refsiaðgerðum gegn rússneskum auðkýfingum í tilraun sinni að setja aukinn þrýsting á rússnesk yfirvöld að hætta herinnrás sinni í Úkraínu.
Fram kom í yfirlýsingu Hvíta hússins í gær að bandaríska fjármálakerfið muni loka á þá og fjölskyldur þeirra, eignir þeirra í Bandaríkjunum verða frystar og ekki verður hægt að nota fasteignir þeirra.
Meðal annars er um að ræða lúxusíbúðir, snekkjur og einkaþotur.
Yfir 50 rússneskum auðkýfingum verður einnig bannað að ferðast til Bandaríkjanna og er aðgerðunum sömuleiðis ætlar að koma í veg fyrir að þeir feli auðæfi sín með því að færa þau yfir á skyldmenni sín.
Með þessu vill Joe Biden Bandaríkjaforseti setja aukna pressu og efnahagsrefsiaðgerðir á rússneska auðkýfinga sem hafa hingað til stutt Vladimír Pútín Rússlandsforseta í þeim tilgangi að þeir sjái sér hag í því að hætta stuðningi við Pútín. Talið er að bann við fjármuna- og eignaflutningi til fjölskyldumeðlima gæti haft talsverð áhrif, en eignatilfærsla innan fjölskyldna er þekktur mótleikur við efnahagsrefsingum af þessu tagi.
Bandarísk stjórnvöld telja að ef aukin pressa verði sett á rússneska auðkýfinga muni þeir fjarlægjast Pútín og hugsanlega á endanum knýja hann til að hætta hernaðarárásinni í Úkraínu.
Fyrr í vikunni var tilkynnt um harðari aðgerðir gegn rússneskum auðkýfingum í Evrópu, m.a. gegn stáljöfrinum Alisher Usmanov, Mikhail Fridman og Petr Aven, eigenda Alfa Group og Alexey Mordashov, sem er stærsti eigandi og stjórnarformaður Severstal samsteypunnar. Þýsk yfirvöld hafa yfirtekið lúxussnekkju Usmanov og Frakkar hindruðu Igor Sechin, forstjóra Rosneft orkurisans að yfirgefa höfnina á lúxussnekkju sinni í Cote D’Azur. Báðir auðkýfingarnir hafa sagt aðgerðirnar bæði óréttlátar og ólöglegar.
En skilaboðin eru skýr. Samkvæmt frétt hjá CNN hafa rússneskir auðkýfingar þegar brugðist við. Roman Abramovich hefur tilkynnt að hann ætlaði að selja knattspyrnufélag Chelsea, sem hann keypti 2003. Þrátt fyrir að nafn hans sé ekki á lista olígarkanna, eru Bretar að þrýsta á að honum verði bætt við. „Hann er dauðhræddur við refsiaðgerðir og ætlar að selja heimili sitt á morgun og aðrar fasteignir í Bretlandi,“ sagði Chris Bryant í samtali við Bloomberg fréttaveituna.
Auðkýfingarnir eru á ferðinni, sem er vitað að hluta til vegna þess að, Jack Sweeney, 19 ára táningurinn í Flórída sem hannaði fyrr ár árinu þjarka til að fylgjast með flugvél Elon Musk, hefur nú snúið sér að því að fylgjast með ferðum rússnesku auðkýfinganna. Fyrr í vikunni voru fjórar lúxussnekkjur í eigu rússneskra auðmanna, sem tengdir eru við Pútín, á leiðinni til Montenegro og einnig til Maldíveyja í Indlandshafi. Áhugavert er að enginn framsalssamningur er milli Bandaríkjanna og Maldíveyja, og gæti það gert eyjarnar áhugaverðari fyrir auðmennina.
Ekki er þá allt upp talið því hefðbundin leiksvæði elítunnar rússnesku, eins og Mónakó og franska rívíeran tóku upp sambærilegar refsiaðgerðir og Evrópusambandið á þriðjudaginn. Einnig hefur Sviss, sem þekkt er fyrir hlutleysið, nú stigið á stokk með Evrópusambandinu og tilkynnt að þeir myndu loka lofthelgi sinni fyrir rússneskum flugfélögum og banna komu fjölda fylgismanna Pútíns til landsins.
En í samtali við CNN sagði Alison Jimenez forstjóri ráðgjafafyrirtækisins Dynamic Securities Analytics að peningar auðkýfinganna séu sjaldnast skráðir sem þeirra eign, heldur séu faldir í alls kyns leppfyrirtækjum. „Það er hægt að taka snekkjurnar og flugvélarnar en þeir eru með peninga falda út um allan heim. Þótt hægt vær að ná 75% fjármagns þeirra, myndu þeir samt vera ríkari en allir aðrir í heiminum.“
En þrýstingurinn hefur líka sálfræðileg áhrif. Í vikunni slitu Mikhail Fridman og Oleg Deripaska bæði hefðbundin tengsl við Kreml og báðu um að enda stríðið í Úkraínu. Mikhail Fridman, sem hefur verið nátengdur Pútín, skrifaði í bréfi til starfsfólks síns að hann vildi að blóðbaðinu linnti.” Stuttu síðar fetaði Oleg Deripaska í fótspor hans sendi út skeyti á Telegram appinu og sagði að friðarviðræður yrðu að hefjast strax.