Sænsk kona lét son sinn berjast fyrir Ríki íslams

Sonur konunnar barðist fyrir Ríki íslams í Sýrlandi.
Sonur konunnar barðist fyrir Ríki íslams í Sýrlandi. AFP

Dómstóll í Svíþjóð hefur dæmt konu í sex ára fangelsi fyrir að láta son sinn berjast fyrir Ríki íslams í Sýrlandi.

Konan, sem er 49 ára, var dæmd fyrir aðild að stríðsglæpum, brot á alþjóðalögum og fyrir að „koma ekki í veg fyrir að sonur sinn, sem þá var á aldrinum 12 til 15 ára gengi til liðs við Ríki íslams og yrði notaður sem barnahermaður í vopnuðum átökum í Sýrlandi” sagði í yfirlýsingu dómstólsins í borginni Stokkhólmi.

Konan og eiginmaður hennar höfðu verið hluti af herskáu íslömsku samfélagi „í anda sértrúarsafnaðar” og í apríl 2013 fékk hún son sinn til að ganga til liðs við pabba sinn og eldri bróður í Sýrlandi.

Dómstóllinn sagði að hún hlyti að hafa áttað sig á því að sonur hennar yrði notaður sem barnahermaður.

Konan var ákærð í janúar en sonur hennar lést árið 2017. Ekki hefur verið greint frá dánarorsök hans.

Um 300 Svíar eða íbúar í landinu, fjórðungur þeirra eru konur, gengu til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi og Írak, mestmegnis á árunum 2013 og 2014, að sögn leyniþjónustunnar Sapo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka