Segir Hvítrússa ekki ætla að taka þátt

Alexander Lúkasjenkó segir Hvítrússa ekki ætla að veita Rússum liðsinni …
Alexander Lúkasjenkó segir Hvítrússa ekki ætla að veita Rússum liðsinni í innrásinni í Úkraínu. AFP

Alexander Lúkasjenkó forseta Hvíta-Rússland segir þjóð sína ekki ætla taka þátt í hernaðaraðgerðum Rússa í Úkraínu, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Þá kveðst hvítrússneski forsetinn hafa átt langt samtal við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í gegnum síma fyrr í dag.

Áhyggjur hafa verið uppi um að Hvíta-Rússland muni veita Rússum liðsinni í innrásinni. Er það m.a. mat banda­ríska öld­unga­deild­arþing­manns­ins Marco Ru­bio, en hann er einn átta þing­manna banda­ríkjaþings sem fá reglu­lega upp­lýs­ing­ar frá leyniþjón­ust­um þar í landi, embætt­is síns vegna.

Vísbendingar eru uppi um að Lúkasjenkó hafi undir höndum umtalsverðar upplýsingar um áform Rússa vegna innrásarinnar. Á ljósmynd sem birtist að kvöldi mánudags má sjá Lúkasjenkó við hlið landakorts þar sem búið er að merkja örvar sem tákna leiðirnar sem rússneski herinn hefur farið.

Þá eru einnig merktar leiðir fyrir árásir sem hafa ekki enn raungerst.

Héldu sameiginlegar heræfingar

Úkraínsk stjórn­völd hafa sagt gögn sín gefa til kynna að um þrjú hundruð hví­trúss­nesk­ir skriðdrek­ar bíði fær­is við landa­mæri ríkj­anna í norðri.

Þá héldu Rúss­nesk og hví­trúss­nesk herlið sam­eig­in­leg­ar heræf­ing­ar dag­ana áður en inn­rás Rúss­lands hófst í Úkraínu. Eftir breytingar á stjórnarskrá landsins geta Hvítrússar einnig hýst kjarnavopn og rússnesk herlið til frambúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert