Sjónvarpsstöðin Dosjd, sem þekkist á ensku undir nafninu TV Rain, lauk síðustu útsendingu sinni á því að sýna ballettinn Svanavatnið eftir Pjotr Tsjaíkovskí.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hefur ríkissaksóknari Rússlands skipað fjölmiðlaeftirliti landsins að „takmarka aðgang“ að útvarpsstöðinni Ekkó Moskví og sjónvarpsstöðinni Dosjd. Þá hafa stjórnvöld bannað að minnsta kosti sex aðra rússneska fjölmiðla.
Blaðamaður Guardian í Moskvu bendir á að Dosjd hafi farið út með hvelli, þar sem hún sýndi sömu uppsetningu Svanavatnsins og sjá mátti í sovéskum sjónvörpum árið 1991, á sama tíma og reynd var að ræna forsetann Míkhaíl Gorbatsjov völdum.
TV Rain goes out with a bang, broadcasting the Swan Lake performance that aired on Soviet TVs in 1991 during the attempted coup against Gorbachev. At a time when many wonder if those around Putin could stop this war in Ukraine and Russia’s plunge into isolation. https://t.co/ADFGVwxy8o
— Andrew Roth (@Andrew__Roth) March 3, 2022
Daginn eftir að bannið var lagt á Dosjd tilkynnti Tikon Dsíadkó, ritstjóri stöðvarinnar, að hann hefði flúið Rússland eins og sumir samstarfsmenn hans og sagðist vera „í hættu“.
Fullyrt er að bannið sé vegna þess að óháðir fjölmiðlar neituðu að fylgja opinberri stefnu um innrásina í Úkraínu og hafi dreift „vísvitandi röngum upplýsingum um aðgerðir rússneskra hermanna“.