Tékkar sem halda til Úkraínu og berjast við hlið heimamanna munu ekki sæta refsingu að því er tékknesk stjórnvöld tilkynntu í dag.
„Forsetinn hefur vald til þess að tryggja refsileysi vegna þessa,“ sagði Petr Fiala forsætisráðherra Tékklands eftir fund með forseta Tékklands, Milos Zeman.
Tékkland er eitt ríkja Atlantshafsbandalagsins.
Samkvæmt tékkneskum lögum er Tékkum ekki heimilt að taka þátt í hernaðaraðgerðum annars hers en þeirra eigin og geta slík brot varðað fimm ára fangelsi. Forseti getur þó veitt undanþágu frá þessum lögum.
Forseta Tékklands hafa samtals borist um 300 undanþágubeiðnir en 100 sambærilegar beiðnir hafa borist varnarmálaráðuneytinu þar í landi.
Úkraínski herinn kallaði eftir því að nágrannaríki sýndu stuðning í verki og sendu mannafla til Úkraínu til þess að verjast innrás Rússa, sem hófst þann 24. febrúar.