Hitti Pútín, hringdi í Selenskí og flaug til Berlínar

Frá fundi leiðtoganna tveggja í október.
Frá fundi leiðtoganna tveggja í október. AFP

Forsætisráðherra Ísraels, Naftali Bennett, tók óvænt að sér hlutverk málamiðlara í dag þegar hann flaug til fundar við Vladimír Pútín í Moskvu, áður en hann hringdi svo í Volodimír Selenskí forseta Úkraínu, og endaði á að fljúga til Berlínar.

Fundur hans og Pútín varði í þrjár klukkustundir.

Bennett hefur til þessa stigið létt niður fæti hvað innrásina í Úkraínu varðar, í tilraun til að viðhalda viðkvæmu öryggissamstarfi við Rússland, sem heldur úti stórum her í nágrannaríkinu Sýrlandi.

Bennett hefur þannig ekki gengið í hóp leiðtoga Vesturlanda, þar á meðal Bandaríkjanna sem eru lykilbandamaður Ísraels, og fordæmt innrásina eins og þeir. Þess í stað hefur hann lagt áherslu á sterk sambönd Ísraels við bæði Rússland og Úkraínu.

Veltur á hugarástandi Pútíns

Áður en kom að Moskvuferð hans í dag hafði Bennett ítrekað rætt við bæði Pútín og Selenskí í síma.

„Þetta er djörf en áhættusöm tilraun,“ segir Michael Oren, fyrrverandi sendiherra Ísraels í Washington, í samtali við fréttastofu AFP. 

„Mikið veltur á hugarástandi Pútíns,“ bætir hann við og bendir á að þó að Pútín hafi hafnað málamiðlunartillögum fyrir innrásina, sé önnur staða uppi í dag.

„Pútín gæti verið að leita að leið upp úr þessum vanda. Bennet gæti jafnvel útvegað honum stigann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert