Kínverjar ættu að hafa milligöngu um friðarviðræður milli Rússlands og Úkraínu í framtíðinni þar sem vesturveldin geta ekki sinnt því hlutverki, sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.
Kína hefur hingað til forðast að fordæma árás Moskvu á vestræna nágranna sína í viðleitni sinni til að viðhalda nánum tengslum við Rússland.
Wang Yi utanríkisráðherra Kína sagði á þriðjudag að Kína „harmi mjög að átök hafi brotist út á milli Úkraínu og Rússlands, og veki mikla athygli á því tjóni sem almennir borgarar verða fyrir,“ sagði ríkisútvarpið CCTV.
„Það er ekkert val... Það verður að vera Kína, ég er viss um það,“ sagði Borrell í viðtali við spænska dagblaðið El Mundo sem birt var í gærkvöldi.
„Diplómasía getur ekki aðeins verið evrópsk eða amerísk. Kínversk diplómasía hefur hlutverki að gegna hér," bætti hann við.
Borrell sagði það vera „augljóst“ að hvorki ESB né Bandaríkin gætu miðlað málum og útilokaði að endurvekja hið svokallaða Normandí-snið, viðræðuhóp fjögurra ríkja, Rússlands, Úkraínu, Frakklands og Þýskaland.
Viðræðuhópurinn var stofnaður árið 2014 til að reyna að leysa deiluna um Donbas-svæðið.
Þriðja lota friðarviðræðna milli Moskvu og Kænugarðs verður haldin á mánudag að sögn Davíd Arakamía, eins sendifulltrúa í úkraínsku samninganefndinni.