Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir stjórnvöld í Kreml líta á það sem svo, að hvert það ríki sem skipi fyrir um loftferðabann yfir Úkraínu sé með því að ganga inn í styrjöldina.
„Nokkur hreyfing í þessa átt verður að okkar mati talin þátttaka í vopnuðum átökum, af hálfu þess lands,“ sagði Pútín á fundi með starfsmönnum flugfélagsins Aeroflot í dag.
Bætti hann við að fyrirskipun um loftferðabann yfir Úkraínu hefði „risastórar og hörmulegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir Evrópu heldur fyrir allan heiminn“.
Þá sagði hann ekkert hæft í þeim orðrómi að fyrirhugað væri að lýsa yfir herlögum í Rússlandi.
„Herlög á aðeins að kynna til sögunnar þegar það er árás að utan. Við erum ekki að upplifa það núna og ég vona að það gerum við ekki.“