Reykur stígur upp frá flóttaleiðinni

Úkraínskur drengur á flótta. Um 1,4 milljónir Úkraínumanna hafa flúið …
Úkraínskur drengur á flótta. Um 1,4 milljónir Úkraínumanna hafa flúið landið. Það virðist reynast íbúum Maríupolar erfitt að komast sömu leið. AFP

Áframhaldandi árásir Rússa á borgina Maríupol þrátt fyrir umsamið vopnahlé hafa ollið verulegum glundroða í borginni sem fjöldi fólks ætlaði að yfirgefa í dag vegna nokkurra klukkustunda vopnahlés sem átti að hefjast í morgun. 

„Akkúrat núna er ég í Maríupol, úti á götu, og ég heyri í sprengjum springa á þriggja til fimm mínútna fresti,“ sagði Alexander, verkfræðingur á fimmtugsaldri sem býr í borginni, í samtali við BBC

„Ég sé bíla fólks sem reyndu að flýja en eru núna að snúa við,“ sagði hann. 

Þremur klukkustundum eftir að vopnahléið átti að hefjast tilkynntu yfirvöld í borginni að rýmingu borgarinnar hefði verið frestað vegna áframhaldandi árása.

„Við biðjum íbúa Maríupolar að leita skjóls, við munum veita upplýsingar um rýminguna fljótlega,“ sagði í yfirlýsingu frá yfirvöldum.

Úkraínskir hermenn aðstoða eldri konu við að komast yfir brú …
Úkraínskir hermenn aðstoða eldri konu við að komast yfir brú á gjöreyðilögðu svæði í borginni Irpin sem er í grennd við Kænugarð. AFP

Mikilvæg borg fyrir Rússa

Um 400.000 manns búa í hafnarborginni Maríupol. Borgin er Rússum mikilvæg hernaðarlega. Ef þeir ná völdum yfir henni leyfir það aðskilnaðarsinnum sem studdir eru af Rússum í austur Úkraínu að sameinast hermönnum á Krímskaga, landsvæði sem Rússar hertóku árið 2014.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að íbúar í Maríupol og í borginni Volonovakha, þar sem einnig hafði verið samið um vopnahlé, hafi ekki nýtt sér þær flóttaleiðir sem stóðu til boða. Þá hafa rússneskir ríkisfjölmiðlar sakað úkraínsk yfirvöld um að hafa komið í veg fyrir það að fólkið færi úr borginni.

Myndskeið frá Maríupol sýna sprengingar nærri miðbæ borgarinnar og reyk stíga upp frá þjóðveginum til borgarinnar Zaporizhzhia en þann veg áttu íbúar Maríupolar að flýja um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert