Rússar samþykkja vopnahlé í tveimur borgum

Kona eldar fyrir úkraínska hermenn í Kænugarði. Þar er ekkert …
Kona eldar fyrir úkraínska hermenn í Kænugarði. Þar er ekkert vopnahlé í augsýn. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi og Úkraínu hafa komist að samkomulagi um tímabundið vopnahlé í tveimur borgum í suðurhluta Úkraínu. Tilgangur vopnahlésins er sagður sá að gefa almennum borgurum tækifæri á að yfirgefa borgina. 

Um er að ræða fyrsta vopnahléið síðan Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir tíu dögum síðan.

Borgirnar tvær eru Maríupol og Volnovakha en vopn voru lögð niður þar í landi klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma eða klukkan níu að staðartíma.

Vopnahléinu lýkur klukkan fjögur síðdegis í dag að staðartíma eða klukkan tvö að íslenskum tíma. Stríð geisar þó áfram á þessum tíma víða annars staðar í Úkraínu.

„Maríupol er ekki götur og hús. Borgin er íbúar hennar,“ sagði Vadím Boichenko, borgarstjóri Maríupol, í yfirlýsingu eftir að vopnahléið var tilkynnt.

„Þar sem skotárásirnar eru stöðugar höfum við ekki annarra kosta völ en að gefa íbúum Maríupol tækifæri á að yfirgefa borgina með öruggum hætti.“

7 til 9 þúsund manns ættu að geta yfirgefið borgina

Rýming almennra borgara mun hefjast á næsta klukkutímanum. Rútur munu fara frá þremur stöðum í borginni og mun fólk einnig geta keyrt á einkabílum eftir ákveðinni leið sem verður vöktuð. Stranglega bannað er að fara aðra leið út úr borginni. 

Engar lestir eru starfhæfar á svæðinu vegna árása rússneskra hersveita sem hafa eyðilagt lestarteina og lestir.

Ábendingar um að Rússar nýti vopnahléið í hernaðarlegum tilgangi

Bætt við kl. 9:36: 

Iryna Vereshchuk, staðgengill forsætisráðhera Úkraínu, segir að rússneskar hersveitir megi ekki nýta vopnahléið til þess að koma hermönnum sínum lengra inn í borgirnar. Úkraínskum stjórnvöldum hafa borist ábendingar um að slíkt hafi átt sér stað og eru stjórnvöld nú að reyna að fá þær upplýsingar staðfestar.

„Við erum að nota þessa leið til þess að koma almennum borgurum, konum og börnum, út úr borginni og koma mannúðaraðstoð til þeirra sem munu halda kyrru fyrir. Allur heimurinn fylgist með,“ segir hún. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert