Selenskí fordæmir NATO

Volodimír Selenskí á blaðamannafundi í vikunni.
Volodimír Selenskí á blaðamannafundi í vikunni. AFP

Stjórnvöld Úkraínu og margra Vesturlanda lýstu í gær megnri óánægju sinni með árás rússneska hersins á stærsta kjarnorkuver Evrópu í fyrrinótt, Saporisjía-verið við ána Dnípró í suðurhluta Úkraínu.

Svo virðist sem kjarnakljúfarnir sjálfir, sem sjá fjórum milljónum heimila fyrir raforku, hafi sloppið óskaddaðir frá eldflaugaárásum Rússa, en eldur kviknaði í nærliggjandi byggingu.

Þúsundir borgara hafa látið lífið í landinu frá því innrásin hófst aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar, að sögn úkraínskra yfirvalda. Særðir hermenn, sem blaðamaður AFP tók tali á sjúkrahúsi í Kænugarði í gær, sögðu frá hatrömmum orrustum við Rússa þar sem þeir sóttu að höfuðborginni. Sömu hermenn hétu því að snúa aftur í fremstu víglínu. Ekkert lát er á straumi flóttamanna frá Úkraínu í kjölfar innrásarinnar. Hafði fjöldi þeirra náð 1,25 milljónum manna samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna í gær.

Töluverður meirihluti flugvéla úkraínska flughersins er enn reiðubúinn til notkunar gegn herliði Rússlands. Margir hernaðarsérfræðingar hafa furðað sig á því hve lítið hafi sést til rússneska flughersins, en búist var við því að Rússar myndu tryggja sér yfirburði í lofti á fyrstu dögum innrásarinnar. Sú hefur ekki orðið raunin og enn er barist um yfirráð í háloftunum að mati sérfræðinga í Pentagon.

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu fordæmdi í gær Atlantshafsbandalagið fyrir þá ákvörðun ríkja þess að slá loftferðabann yfir landinu út af borðinu. Í yfirlýsingu á myndskeiði sem forsetaembættið gaf út í gærkvöldi sagði hann bandalagið vita að líkur væru á frekari árásargirni Rússa. Fyrr um daginn hafði bandalagið hafnað ósk Úkraínu um að skipa fyrir um bannið.

„Vitandi að fleiri sprengjuárásir og meira mannfall er óumflýjanlegt ákvað NATO vísvitandi að loka ekki háloftunum yfir Úkraínu,“ sagði forsetinn í yfirlýsingunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að hugsanlegt loftferðabann NATO fæli í sér beina íhlutun bandalagsins í átökum þar í landi. Það komi ekki til greina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert