Sprengingar Rússa halda áfram þrátt fyrir vopnahlé

Karlmaður í borginni Lviv æfir sig í að henda svokölluðum …
Karlmaður í borginni Lviv æfir sig í að henda svokölluðum Molotov-kokteil. AFP

Rýmingu almennra borgara frá úkraínsku borginni Maríupol hefur verið frestað þar sem rússneskar hersveitir virðast ekki hafa lagt niður vopn eins og þær sögðust ætla að gera. 

Bæði staðgengill borgarstjóra Maríupol og almennir borgarar hafa greint fréttastofu BBC frá því að enn láti Rússar sprengjur dynja á Maríupol þrátt fyrir umsamið tímabundið vopnahlé. 

Vopnahléið átti að hefjast klukkan sjö í morgun að staðartíma, eða níu að íslenskum tíma. Átti það að standa yfir í sjö klukkustundir svo hægt væri að flytja almenna borgara af svæðinu.

Ekki öruggt að rýma borgina

Serhiy Orlov, staðgengill borgarstjóra Maríupol, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að hætta rýmingu borgarinnar þar sem götur hennar séu ekki öruggar. Áfram sendi Rússar sprengjur þangað og einnig að vegum sem átti að nota fyrir rýminguna.

„Vegna þessa er ekki öruggt að fara út á veginn,“ segir Orlov við BBC. 

Úkraínska ríkisstjórnin á nú í viðræðum við rússneska embættismenn vegna stöðunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert