Varar við yfirmáta Rússahatri

Stríðinu í Úkraínu hefur víða verið mótmælt. Þessi mynd er …
Stríðinu í Úkraínu hefur víða verið mótmælt. Þessi mynd er frá Indónesíu. AFP

„Auðvitað er þessi innrás í Úkraínu forkastanleg enda leysir hún engin vandamál en býr til mörg ný,“ segir Árni Bergmann, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri, inntur álits á stöðu mála í stríðinu í Úkraínu.

Hann segir allt verða verra á eftir, þar á meðal stöðu rússneska minnihlutans í Úkraínu sem hafður sé að yfirvarpi í stríðinu. „Um leið vil ég þó vara við öllu yfirmáta Rússahatri sem gosið hefur upp og breitt úr sér, þar á meðal hér á landi, og bitnar á sárasaklausu fólki. Það er út í hött að samsama ráðamenn og þjóð. Við eigum alltaf að forðast að ganga fram í blindu hatri gagnvart öðrum. Það er svakalegt að heyra að rússnesk börn hér á landi séu að verða fyrir einelti út af þessu stríði.“

Sjálfur hefur Árni aldrei verið hrifinn af Pútín og hans stjórnarháttum og alltaf haft mikið við þau að athuga, ekki síst núna nýlega þegar hann bannaði mannréttindasamtökin Memorial sem voru stofnuð til að halda á lofti minningu þeirra sem fórust í gúlaginu. 

Árni Bergmann rithöfundur þekkir vel til í Rússlandi.
Árni Bergmann rithöfundur þekkir vel til í Rússlandi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson


Oft setið uppi með versta tilbrigðið

Árni bendir á að rússneska þjóðin hafi oft setið uppi með versta tilbrigðið við það sem í boði var í pólitískum efnum og stjórnsýslu hverju sinni. „Fyrr á tímum voru einvaldir kóngar út um allt og líklega fáir verri en Ívan grimmi. Seinna kom sósíalisminn sem lyfti verkalýðshreyfingunni út um allt en endaði í stalínismanum í Sovétríkjunum. Þegar þau hrundu og kapítalisminn kom þá var það ekki kapítalismi sem myndaður var út frá sósíaldemókratískri velferð heldur þjófræði þeirra sem voru í aðstöðu til þess að sölsa undir sig eignir samfélagsins. Og Pútín hefur alltaf verið nátengdur þessum forríku óligörkum.“

Nánar er rætt við Árna Bergmann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert