Áform um andspyrnu og ríkisstjórn í útlegð

Menn æfðu sig í að kasta Mólotov-kokteilum á föstudag fyrir …
Menn æfðu sig í að kasta Mólotov-kokteilum á föstudag fyrir utan borgina Lvív. AFP

Þó svo her Úkraínu hafi komið á óvart með harðri mótspyrnu sinni við innrás Rússa í landið, búast stjórnvöld á Vesturlöndum enn við því að rússneski herinn muni á endanum fara með sigur af hólmi.

Í kjölfarið muni samt sem áður myndast sterk andspyrnuhreyfing og blóðug og langvinn uppreisnarbarátta heimamanna.

Nú þegar eru Vesturlönd farin að leggja á ráðin um hvernig megi styðja við andspyrnuhreyfingu Úkraínumanna, að því er segir í umfjöllun Washington Post.

Íbúar Irpín nærri Kænugarði reyna að flýja borgina fyrr í …
Íbúar Irpín nærri Kænugarði reyna að flýja borgina fyrr í dag eftir sprengjuárásir Rússa. AFP

Vopnin myndu skipta sköpum

Bent er á að embættismenn séu tregir til að ræða nákvæm áform, þar sem í þeim sé gert ráð fyrir sigri rússneska hersins. Hversu líklegur sem hann sé, þá hafi hann ekki enn orðið að veruleika.

Fyrsta skref umræddra áforma felst í að undirbúa útlegð ríkisstjórnar Úkraínu og stuðning við hana, en hún gæti svo skipulagt herferðir skæruliða gegn hersetumönnum úr liði Rússa.

Hefur dagblaðið þetta eftir nokkrum evrópskum og bandarískum embættismönnum.

Vopnin sem Bandaríkin hafa veitt úkraínska hernum, og flæða enn inn í landið, myndu þá skipta sköpum fyrir árangur slíkrar hreyfingar að sögn þeirra.

Úkraínskir hermenn á gangi um borgina Lvív í dag.
Úkraínskir hermenn á gangi um borgina Lvív í dag. AFP

Tíu milljarðar bandaríkjadala

Ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta hefur beðið þingið, þar sem ríkir sjaldgæfur þverpólitískur andi um stuðning við Úkraínu, að samþykkja aðstoðarpakka til landsins upp á tíu milljarða bandaríkjadala.

Í pakkanum felast meðal annars fjárveitingar til að endurnýja þær vopnabirgðir sem þegar hafa verið sendar.

Að mati embættismanna myndi forsetinn Volodimír Selenskí gegna afar mikilvægu hlutverki, eigi Bandaríkin og önnur ríki að styðja andspyrnuhreyfinguna. Hann geti haldið uppi baráttuanda og hvatt Úkraínumenn undir hæl Rússa til að berjast gegn þessum máttuga óvini.

Í dómkirkju sankti Vladimírs í Kænugarði í dag.
Í dómkirkju sankti Vladimírs í Kænugarði í dag. AFP

Ríkisstjórnin gæti verið í Póllandi

Sá möguleiki að Rússar taki völdin í Kænugarði hefur hrundið af stað mörgum og löngum vinnutörnum í utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Bandaríkjanna, auk annarra stofnana, í því skyni að undirbúa flótta ríkisstjórnar Selenskís frá höfuðborginni eða jafnvel úr landinu sjálfu.

Rætt er um þann möguleika að Selenskí haldi úti ríkisstjórn sinni frá Póllandi.

Sjálfur er forsetinn enn í Kænugarði og hefur fullvissað borgara sína um að hann sé ekki á leiðinni neitt. Bandarískir embættismenn munu hafa rætt við hann um hvort hann eigi að færa sig vestur á öruggari stað, í borginni Lvív, nærri landamærum Póllands.

Öryggisvarðasveit hans mun þá hafa lagt á ráðin um hvernig megi fljótt koma honum burt ásamt öðrum í ríkisstjórninni, að sögn háttsetts úkraínsks embættismanns.

„Hingað til, þá hefur hann neitað að fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert