Hátt í 5.000 handteknir í Rússlandi í dag

Einnig var mótmælt í Hvíta-Rússlandi.
Einnig var mótmælt í Hvíta-Rússlandi. AFP

Um 4.600 manns voru handteknir í dag víða um Rússland vegna mótmæla gegn innrás Rússa í Úkraínu. Ellefu dagar eru liðnir frá upphafi innrásarinnar.

Talsmaður lögreglu sagði að 1.700 manns hefðu verið handteknir í dag í Moskvu af þeim 2.500 sem tóku þátt í ólöglegum mótmælum í höfuðborginni. Um 750 manns voru handteknir í Sankti Pétursborg eða um helmingur mótmælenda.

Samkvæmt upplýsingum frá OVD-Info, óháðum eft­ir­litsaðila, var fólk handtekið í 65 bæjum og borgum víða um Rússland. Myndbönd sem sýna óeirðarlögreglu beita mótmælendur ofbeldi með kylfu hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Sex mótmælendur slösuðust í bílslysi

Lögreglubíll sem var að flytja mótmælendur á lögreglustöð lenti í bílslysi með þeim afleiðingum að níu slösuðust, þar af sex mótmælendur.

Rússneska lögreglan varaði við því á föstudag að öll ólögleg mótmæli myndu vera bæld niður og mótmælendur myndu verða kærðir.

Nú hafa um 10.000 mótmælendur verið handteknir síðan innrás Rússa hófst 24. febrúar. Þrátt fyrir hörð viðbrögð stjórnvalda í Rússlandi hafa íbúar landsins mótmælt innrásinni daglega frá því hún hófst.

Mótmælendur í Barcelona, Spáni.
Mótmælendur í Barcelona, Spáni. AFP

Land raggeitanna

Á föstudag hvatti stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní, sem situr nú í fangelsi, fólk til þess að mótmæla á öllum torgum Rússlands og um allan heim í dag. Hann hvatti sérstaklega Rússa til þess að láta sjá sig og sagði að Rússland ætti ekki að verða land raggeitanna.

Á föstudag herti Vladimír Pútín Rússlandsforseti fjölmiðlalög í landinu þannig að þeir sem birta „falskar fréttir“ um rússneska herinn eiga yfir höfði sér 15 ára fangelsisdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert