Tuttugu þúsund erlendir sjálfboðaliðar hafa ferðast til Úkraínu í því skyni að hjálpa heimamönnum að verjast innrás Rússa.
Frá þessu greindi úkraínski utanríkisráðherrann Dmítró Kúleba í samtali við bandarísku fréttastöðina CNN. Bætti hann við að flestir kæmu frá Evrópu.
„Margt fólk í heiminum hataði Rússland og hvað það hefur verið að gera á undanförnum árum, en enginn þorði að standa opinberlega gegn Rússum og berjast við þá,“ sagði ráðherrann.
„Svo að þegar fólk sá að Úkraínumenn eru að berjast, að Úkraínumenn eru ekki að gefast upp, þá fylltust margir kappi til að bætast í liðið,“ og láta Rússa gjalda fyrir innrás sína.
Hann lagði áhersu á að mikilvægara hafi þó reynst að fá pólitískan, efnahagslegan og hernaðarstuðning frá öðrum ríkjum.
„Og við þurfum forystu Bandaríkjanna í þessu, með sérstaka áherslu á loftvarnir,“ sagði Kúleba.
Selenskí hefur formlega boðið útlendingum til landsins til að mynda nokkurs konar alþjóðlega hersveit sem barist geti við hlið Úkraínumanna gegn Rússum.
Auglýst var eftir sjálfboðaliðum í úkraínskum sendiráðum í viðkomandi ríkjum.
Stjórnvöld í Danmörku og Tékklandi eru á meðal þeirra sem gefið hafa grænt ljós á ríkisborgara sína til að berjast í Úkraínu.