Augnablikin og plönin sem aldrei verða

Jaroslav og tíkin Frú, en hún hefur nú misst alla …
Jaroslav og tíkin Frú, en hún hefur nú misst alla heyrn og getur ekki lengur gengið.

Þó að stríð geisi í heimalandinu, fjöldi nágranna hafi lagt á flótta og lífinu verið snúið á hvolf eru það oft hversdagslegar hugsanir og augnablik sem standa upp úr allri ringulreiðinni. Hugsanir um öll sumarfrísáformin sem urðu að engu með innrás Rússa og að koma heim og fá þær fréttir að besti vinurinn til 14 ára er senn að fara að kveðja. 

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins og hjón­un­um Ser­gei og Irínu í Lviv í vest­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is reglu­leg­um dag­bók­ar­færsl­um sín­um um ástandið, upp­lif­un sína og hvað er efst í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð hef­ur brot­ist út í eig­in landi.

Sunnudagur 6. mars

Jaroslav í Ódessa

Í dag var nokkuð kyrrlátur dagur fyrir almenna íbúa í hverfinu mínu. Ég fór reyndar og verslaði slatta fyrir skjólstæðinga okkar sem þarfnast aðstoðar og við fórum með yfir 15 sendingar til þeirra. Við höfum sýnt frá þessum sendingum á Instagram til að þeir sem hafa styrkt starfið sjái hvernig við erum að nota styrktarpeningana.

Því miður var þetta ekki góður dagur hjá mér. Meðan ég skrifa þetta er tíkin mín hún Frú (e. Lady) að deyja, en hún er orðin gömul, eða 14 ára. Hún hefur átt rólegt og hamingjusamt líf hingað til, en hún er nú orðin alveg heyrnalaus og frá því í hádeginu hefur hún ekki getað gengið um.

Ég kom heim, ánægður með verkefni dagsins með honum Timur félaga mínum og þá lét mamma mig vita um stöðuna á Frú. Ég settist hjá henni og byrjaði að klóra henni undir eyrunum, eins og henni finnst best. Reyndar fannst henni líka alltaf gott að láta ryksuga á sér bakið. Ég læt fylgja með mynd af henni fyrir alla sem elska dýr. Hún mun vonandi finna eitthvað af fólkinu sem lést eftir sprengjuárásirnar í Karkív.

Sergei og Irína í Lviv

Ellefti dagur stríðsins. Það er kalt í veðri og ég veit ekki hvenær vorið kemur. Hugsa stundum um öll þau plön sem fólk hér var með fyrir árið. Sumir ætluðu að sinna garðinum sínum, aðrir ætluðu erlendis í ferðalag og enn aðrir stefndu á að fara eitthvað út fyrir borgina. Í staðinn munu margir ekki einu sinni geta komið heim til sín þar sem búið er að eyðileggja húsnæði þeirra með sprengjum og eldflaugum.

Margir munu í staðinn fara til annarra Evrópulanda án framtíðar. Það versta er samt að margir hafa verið drepnir og mörg börn munu alast upp án foreldra, eða jafnvel að börn hafi verið drepin. Ég efa að fólk utan Úkraínu muni skilja þetta að fullu. Ég óska engum þess að þurfa að upplifa stríð í eigin landi.

Iríana og sonurinn Danílo, sem er aðeins fimm mánaða gamall.
Iríana og sonurinn Danílo, sem er aðeins fimm mánaða gamall.

Við náðum að kaupa smá mat í búðinni í dag. Það er enn nóg til í búðunum þó skortur sé orðinn á nokkrum vörutegundum.

Versta staðan er nú í borginni Maríupol sem setið er um. Þar er ekkert rafmagn eða rennandi vatn í húsum, algjör mannúðar harmleikur. Það þarf að segja heiminum að fólk þar er að þjást og deyr vegna innrásar Rússa.

Staðan: Drukkum te og þrifum íbúðina í allan dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert