Leiðirnar, sem færar eru fólki sem hyggst leggja á flótta í dag úr úkraínskum borgum, eru ýmist yfir landamærin til Hvíta-Rússlands eða til Rússlands.
Rússnesk yfirvöld tilkynntu um að tímabundið vopnahlé yrði gert í kring um úkraínskar borgir til að greiða leið fólks sem hygðist leggja á flótta, frá klukkan tíu á rússneskum tíma.
Leiðirnar sem greiddar verða fyrir flóttafólki eru frá höfuðborginni Kænugarði, Maríupol, Karkív og Súmí – en leiða ýmist til Hvíta-Rússlands eða Rússlands. Aðgerðin hefur vakið upp spurningar um raunverulegt öryggi þeirra sem kynnu að nýta sér þær.
Samkvæmt yfirlýsingu rússneskra stjórnvalda var ákvörðunin um vopanhléð tekin eftir að Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hafi biðlað til Vladimírs Pútíns persónulega um það.
Tvær síðustu tilraunir til vopnahlés af mannúðarástæðum – sem ætlað var til að gefa fólki færi á flótta – gengu ekki upp þar sem ekkert lát varð á skothríðum.