Funda í Tyrklandi um innrásina í Úkraínu

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, og Mevlut …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, og Mevlut Cvusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. Samsett mynd

Utanríkisráðherrar Úkraínu, Rússlands og Tyrklands hafa ákveðið að funda í suðurhluta Tyrklands á fimmtudaginn næstkomandi.

Frá þessu greindu stjórnvöld í Ankara, höfuðborg Tyrklands, í dag.

Tyrkir hafa reynt að miðla málum milli Rússa og Úkraínumanna og nokkrum sinnum boðið þeim að funda í Tyrklandi.

„Með vilja Guðs, mun þessi fundur fara fram í Antalya á fimmudag,“ er haft eftir Mevlut Cvusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, í tilkynningu sem Anadolu fréttastofan greindi frá í dag.

Tilkynningin um fundinn kemur í kjölfar símtals sem Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti átti við rússnesk og úkraínsk stjórnvöld, að því er fréttaveita AFP greinir frá.

„Að frumkvæði forseta okkar og diplómatískrar viðleitni okkar hafa Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, ákveðið að hittast, og verð ég á hliðarlínunni. Vonandi mun þetta skref leiða til friðs og jafnvægis,“ tísti Cvusoglu.

Tyrkir eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og bandamenn Úkraínumanna. Þeir leitast við að viðhalda góðu sambandi við Rússa enda háðir innfluttum vörum frá þeim.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert